Illugagata 71 í Vestmannaeyjum

Víðir Reynisson átti sín æskuspor á Illugagötu 71 og síðar á Sóleyjargötu 1 eftir Heimaeyjargosið 1973, en faðir hans, Reynir Guðsteinsson skólastjóri, var m.a. kunnur fyrir margs konar stjórnunar- og félagsstörf í Eyjum.  Víðir er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1967 og varð þjóðþekktur sem einn af þríeykinu svokallaða, sem hélt um taumana í vörnum þjóðarinnar gegn covid-19 veirunni.  Þar stóð hann við hlið Ölmu Möller, landlæknis og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, sem einnig á rætur að rekja til Eyja.  Fjölskylda Víðis flutti á meginlandið 1978, þar sem hann lauk sinni skólagöngu og sýndi fljótlega hug og hæfni til starfa að félagsmálum eins og karl faðir hans.  Víðir tengdist m.a. verkefnum björgunarsveita, hjá KSÍ, þar sem hann vann við hlið gamals bekkjarbróður úr Eyjum, fyrrverandi landsliðsþjálfara Heimis Hallgrímssonar, og loks hóf hann störf hjá lögreglunni þar sem hann gegnir stöðu yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra.

Víðir hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín ásamt samstarfsfólki sínu í þríeykinu árið 2020.

Smelltu hér til þess að skoða götumynd á Já.is

Skildu eftir svar