Prestbakki á Síðu

Mynd Kirkjukot

Prestbakki er bær og kirkjustaður á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Hér sat eldklerkurinn Jón Steingrímsson (1728-1791) frá 1778 til dauðadags. Jón var fjölhæfur og víðlesinn maður sem hafði sérstakan áhuga á eldgosum eftir að hann varð vitni að gosi í Kötlu 1755. Þótt Jón hafi skilið eftir sig mörg merk ritverk er hans einkum minnst í tengslum við Skaftárelda og hina frægu „eldmessu“ 20. júlí 1783. Sagan segir að þegar hraunstraumurinn úr Lakagígum nálgaðist Kirkjubæjarklaustur í upphafi sjöundu viku gossins söng Jón messu á Klaustri og náði bænaþungi hans og kirkjugesta að stöðva hraunstrauminn í um tveggja kílómetra fjarlægð. Þar heitir nú Eldmessutangi. Sjálfsævisaga Jóns kom út árið 1913 þótt hún hafi ekki verið hugsuð til útgáfu af hans hálfu. Kapellan á Kirkjubæjarklaustri er helguð minningu séra Jóns Steingrímssonar.

Skildu eftir svar