Betel í Vestmannaeyjum

Betel, kirkja Hvítasunnusafnaðarins, stóð við Faxastíg 6, en húsið stendur þar enn nánast í upprunalegri mynd, nú sem hljóðver. Kirkjan var vígð 1926 og þjónaði söfnuðinum fram til ársins 1994, að hann flutti í Samkomuhúsið við Vestmannabraut. Fyrstu forstöðumenn voru Svíar og Norðmenn, en árið 1948 tók Eyjamaðurinn Einar J. Gíslason við því starfi og gegndi til 1970, þegar hann flutti sig um set til þess að stýra Hvítasunnusöfnuðinum Fíladelfíu í Reykjavík.

*

Einar J. Gíslason varð samnefnari fyrir þróttmikið starf í Betel. Hann þótti mikill ræðumaður, byrjaði yfirleitt á lágum nótum, en talaði sig svo í ham og þrumaði þá yfir kirkjugestum, þar til hann lækkaði snögglega róminn og hóf sömu hringrás að nýju frá lágum tónum til þeirra hæstu! Einari til halds og trausts við safnaðarhaldið var Óskar bróðir hans, en saman mynduðu þeir ógleymanlegt tvíeyki og stöðugt fóður í sögur á meðal bæjarbúa, enda glettnir menn og gamansamir. Snorri, sonur Óskars, náði að starfa lengst allra forstöðumanna safnaðarins eða á árabilinu 1975- 2000. Þótt Einar í Betel væri þekktastur fyrir störf sin í trúmálum eyjaskeggja, starfaði hann lengi sem skipaskoðunarmaður í Eyjum og vann sem slíkur mikið að öryggismálum sjómanna. Ævisaga Einars kom út árið 1985 , þar sem hann bregður áhugaverðu ljósi á líf sitt og störf í Eyjum og það samfélag sem þar þreifst fram eftir 20. öldinni.
Unnar Gísli Sigurmundsson, Júníus Meyvant, tónlistarmaður, er sonarsonur Einars J. Gíslasonar.

Skildu eftir svar