Mormónapollurinn í Vestmannaeyjum

Mormónapollur er sjávarlón við vesturbrún Heimaeyjar, skammt sunnan Herjólfsdals. Þar voru mormónar skírðir um og eftir miðja 19. öld. Mormónatrú barst til Eyja 1851 með tveimur mönnum, sem kynnst höfðu þessum trúarbrögðum í Danmörku. Trúboð þeirra mæltist illa fyrir hjá mektarstétt eyjanna, og kvartaði sóknarpresturinn á Ofanleiti, séra Jón Austmann, m.a. sáran við biskup yfir þessari óáran. Nokkrir Eyjamenn létu skírast, og fóru þær athafnir oft fram í skjóli nætur fjarri alfararleið. Svo var um Mormónapoll, en skírnir fóru einnig fram víðar s.s. í sjávarlóni við Brimurð suður á Heimaey. Nokkrir Eyjamenn héltu utan til fyrirheitna landsins, Utah í Ameríku, og urðu fyrstir Íslendinga til þess að setjast þar að, en flestir fóru síðar á tímabilinu 1874 – 1895 eða um 200 manns. Afkomendur íslensku mormónanna minntust síðar forfeðra sinna, sem lögðu í þessa langferð fyrir trú sína, og reistu þeim minnisvarða við Mormónapoll árið 2000.

Skildu eftir svar