Hvammur í Dölum
Landnámsjörð Auðar djúpúðgu
Hvammur er landnámsjörð, fornt höfðingjasetur og kirkjustaður í Hvammssveit í Dalasýslu. Hvammur var landnámsbær Auðar djúpúðgu sem kom til Íslands frá Írlandi. Hún var dóttir Ketils flatnefs hersis í Noregi. Maður hennar var Ólafur hvíti herkonungur í Dyflinni og áttu þau Þorstein rauð sem var um tíma konungur í Skotlandi. Þorsteinn var giftur Þuríði systur Helga magra landnámsmanns í Eyjafirði en Ingunn dóttir Helga var gift Hámundi heljarskinn, tvíburabróður Geirmundar heljarskinns sem nam land á Skarðsströnd í Dölum. Samferða Auði til landsins var Kollur, síðar kallaður Dala-Kollur, faðir Höskuldar eiginmanns Þorgerðar Þorsteinsdóttur, sonardóttur Auðar.
Sturlungar
Hér bjó og Sturla Þórðarson (Hvamm-Sturla), ættfaðir Sturlunga og faðir Snorra Sturlusonar, Sighvats Sturlusonar og Þórðar Sturlusonar. Synir Hvamm-Sturlu áttu sannarlega eftir að láta að sér kveða í íslensku samfélagi, einkum þeir Snorri og Sighvatur, sem sjá má á því að 13. öldin, allt til ársins 1262, er kennd við fjölskylduna og gengur undir nafninu Sturlungaöld. Öldin einkenndist af miklum innanlandsátökum sem Noregskonungur kynnnti undir í þeim tilgangi að ná Íslandi undir sig. En Sturlungar voru ekki aðeins valdagírugir höfðingar því í þeirra hópi voru einnig helstu fræðimenn og skáld Norðurlanda á þessum tíma, þeir Snorri Sturluson og bróðursonur hans Sturla Þórðarson.
Árni Magnússon
Árni Magnússon (1663-1730), fræðimaður og handritasafnari, fæddist að Kvennabrekku í Miðdölum en ólst upp hjá móðurforeldrum sínum í Hvammi. Starfsvettvangur Árna var lengst af í Kaupmannahöfn þar sem hann gegndi meðal annars embætti prófessors við Kaupmannahafnarháskóla. Hann dvaldi á Íslandi 1702-1712 og á þeim tíma vann hann með Páli Vídalín að Jarðabókinni og Manntalinu 1703.
Þríleikur Vilborgar
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur skrifað þríleik um Auði djúpúðgu, Auði (2009), Vígroða (2012) og Blóðuga jörð (2017). Í maí 2018 keypti leikstjórinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson og sænskt framleiðslufyrirtæki hans, Thorsson Produktion AB, kvikmynda- og sjónvarpsréttinn að bókum Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu.