Hvammur í Dölum

Landnámsjörð Auðar djúpúðgu

Hvammur er landnámsjörð, fornt höfðingjasetur og kirkjustaður í Hvammssveit í Dalasýslu. Hvammur var landnámsbær  Auðar djúpúðgu sem kom til Íslands frá Írlandi. Hún var dóttir Ketils flatnefs hersis í Noregi. Maður hennar var Ólafur hvíti herkonungur í Dyflinni og áttu þau Þorstein rauð sem var um tíma konungur í Skotlandi. Þorsteinn var giftur Þuríði systur Helga magra landnámsmanns í Eyjafirði en Ingunn dóttir Helga var gift Hámundi heljarskinn, tvíburabróður Geirmundar heljarskinns sem nam land á Skarðsströnd í Dölum. Samferða Auði til landsins var Kollur, síðar kallaður Dala-Kollur, faðir Höskuldar eiginmanns Þorgerðar Þorsteinsdóttur, sonardóttur Auðar.

Sturlungar

Hér bjó og Sturla Þórðarson (Hvamm-Sturla), ættfaðir Sturlunga og faðir Snorra Sturlusonar, Sighvats Sturlusonar og Þórðar Sturlusonar. Synir Hvamm-Sturlu áttu sannarlega eftir að láta að sér kveða í íslensku samfélagi, einkum þeir Snorri og Sighvatur, sem sjá má á því að 13. öldin, allt til ársins 1262, er kennd við fjölskylduna og gengur undir nafninu Sturlungaöld. Öldin einkenndist af miklum innanlandsátökum sem Noregskonungur kynnnti undir í þeim tilgangi að ná Íslandi undir sig. En Sturlungar voru ekki aðeins valdagírugir höfðingar því í þeirra hópi voru einnig helstu fræðimenn og skáld Norðurlanda á þessum tíma, þeir Snorri Sturluson og bróðursonur hans Sturla Þórðarson.

Árni Magnússon

Árni Magnússon (1663-1730), fræðimaður og handritasafnari, fæddist að Kvennabrekku í Miðdölum en ólst upp hjá móðurforeldrum sínum í Hvammi. Starfsvettvangur Árna var lengst af í Kaupmannahöfn þar sem hann gegndi meðal annars embætti prófessors við Kaupmannahafnarháskóla. Hann dvaldi á Íslandi 1702-1712 og á þeim tíma vann hann með Páli VídalínJarðabókinni og Manntalinu 1703.

Þríleikur Vilborgar

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur skrifað þríleik um Auði djúpúðgu, Auði (2009), Vígroða (2012) og Blóðuga jörð (2017). Í maí 2018 keypti leikstjórinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson og sænskt framleiðslufyrirtæki hans, Thorsson Produktion AB, kvikmynda- og sjónvarpsréttinn að bókum Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu.

 

 

Skildu eftir svar