Oddi á Rangárvöllum

Sæmundur fróði og Oddaverjar

Oddi á Rangárvöllum var eitt mesta höfðinga- og menntasetur landsins til forna og við Odda eru Oddaverjar kenndir. Hér bjó Sæmundur fróði Sigúfsson (1056-1133), ættfaðir Oddaverja og lærðasti maður landsins á sinni tíð. Hér ólst einnig upp hjá Jóni Loftssyni (1124-1197), sonarsyni Sæmundar fróða og einum voldugasta höfðinga landsins á 12. öld, höfðinginn, sagnaritarinn og skáldið Snorri Sturluson (1179-1241).

Kirkjustaður

Talið er að hér hafi verið kirkja frá því skömmu eftir kristnitöku og að kirkjurnar hafi ávallt staðið á svipuðum stað. Hér sátu margir merkir prestar og biskupsefni á öldum áður og á 19. öld þjónaði þjóðskáldið Matthías Jochumsson um tíma í Odda. Núverandi kirkja í Odda er frá 1924, smíðuð eftir uppdrætti Guðjóns Samúelssonar. Talið er að silfurkaleikur í kirkjunni sé frá því um 1300.

Sæmundur á selnum

Afsteypa af verki Ásmundar Sveinssonar, Sæmundur á Selnum, var afhjúpuð þann 17. maí 1998 við kirkjugarðinn í Odda. Fyrirmynd verksins er staðsett framan við aðalbyggingu Háskóla Íslands en myndefnið sótti Ásmundur í þjóðsöguna um Sæmund fróða og ferð hans til Íslands á baki kölska í líki sels.

 

Skildu eftir svar