Hólar í Eyjafirði

Mynd ESSBALD

Hólar eru fornt höfuðból og kirkjustaður innst í Eyjafirði. Á 15 öld bjó hér Margrét Vigfúsdóttir Hólm, ekkja Þorvarðar ríka Loftssonar lögmanns en hann var einn þeirra sem drekktu Jóni Gerrekssyni Skálholtsbiskupi í Brúará árið 1433. Margrét var mikil eignakona og áttir jarðir bæði hér á landi og í Noregi. Margrét gaf forláta altarisbrík í kirkjuna á Möðruvöllum í Eyjafirði og er bríkin enn varðveitt í núverandi kirkju þar. Guðríður, dóttir hennar, giftist Erlendi Erlendssyni sýslumanni á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Einnig má lesa um Margréti Vigúsdóttur í færslunum Möðruvellir í Eyjafirði og Spóastaðir.

Sakamál Magnúsar Benediktssonar

Hér bjó einnig Magnús Benediktsson (1657-1730), ættstór og vel efnaður bóndi sem var dæmdur fyrir að hafa árið 1704 drepið vinnukonu frá Úlfá sem talin var þunguð af hans völdum. Eftir að dómur féll tókst Magnúsi að fara huldu höfði í þrjú ár áður en hann gaf sig fram og var sendur á Brimarhólm árið 1713. Magnús kom heim frá Brimarhólmi brotinn maður, andlega og líkamlega. Hann játaði aldrei á sig morðið. Anna Bryndís Sigurðardóttir skrifaði B.A. ritgerðina Fjörsváfnir (2014) um sakamál Magnúsar Benediktssonar.

Kirkjan og gamli bærinn

Kirkjan á Hólum var hönnuð af Ólafi Briem timburmeistara og skáldi á Grund og reist árið 1853. Hún var friðuð árið 1990 og er nú í umsjá Þjóðminjasafns Íslands eins og gamli torfbærinn á Hólum sem byggður var 1860. Dr. Kristján Eldjárn rannsakaði fjöl úr bænum sem um margt minnir á Möðrufellsfjalirnar sem varðveittar eru í Þjóðminjasafni Íslands. Skrifaði Kristján um þá rannsókn grein í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1967. Möðrufellsfjalirnar eru taldar vera frá fyrri hluta 11. aldar. Einnig hafa fundist fornar fjalir í Rauðhúsum skammt frá Möðrufelli.

Möðrufellsfjalirnar

Skildu eftir svar