Spóastaðir í Biskupstungum

Spóastaðir eru bær í Biskupstungum skammt frá Skálholti. Staðurinn er einkum þekktur fyrir það að biskupnum í Skálholti, hinum danska Jóni Gerrekssyni, var drekkt í Brúará í landi Spóastaða þann 20. júlí 1433.

Jón Gerreksson biskup

Jón átti skrautlegan feril, var dæmdur óhæfur til klerkþjónustu vegna skírlífisbrota en keypti sér uppreisn æru hjá páfanum í Róm. Í kjölfarið var honum veitt Skálholtsbiskupsdæmi en kom ekki til landsins fyrr en nokkrum árum seinna. Jón kom hingað með hóp ribbalda með sér og það leið ekki á löngu þar til hann og sveinar hans urðu afa óvinsælir með þjóðinni þrátt fyrir góðverk biskups eins og að kaupa úr ánauð börn sem enskir kaupmenn höfðu keypt mansali hér á landi. Árið 1432 reyndu sveinar biskups að brenna Margréti Vigfúsdóttur (1406-1486) og bróður hennar Ívar Hólm Vigfússon inni á Kirkjubóli vegna þess að Margrét hafði hafnað bónorði fyrirliða sveinanna. Margrét og Ívar voru barnabörn Ívars Hólms Vigfússonar hirðstjóra (d. 1371). Ívar var drepinn en Margréti tókst að flýja heim norður í Eyjafjörð. Teitur ríki Gunnlaugsson og Þorvarður Loftsson, sem sjálfir höfðu lent illa í biskupi, söfnuðu liði og fóru gegn biskupi og sveinum hans í júlí 1433. Þeir dráðu sveinana, settu biskup í poka og drekktu honum í Brúará. Ekki er vitað til þess að eftirmálar hafi orðið af þessum atburði aðrir en þeir að Margrét giftist Þorvarði Loftssyni en þau voru með ríkustu hjónum landsins á sínum tíma.

Einnig má lesa um Margréti Vigfúsdóttur í færslunum Hólar í Eyjafirði, Möðruvellir í Eyjafirði og Laugarnes í Reykjavík.

Skildu eftir svar