Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum

Upphaf vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum í byrjun 20. aldarinnar varð til þess að fiskafli, sem á land barst, stórjókst. Hlóðust því upp miklar hrúgur af úrgangi við krærnar, þar sem gert var að fiskinum. Var reynt að losna við hrúgurnar með því að flytja þær austur á Urðir eða á bátum út fyrir höfnina og steypa í sjóinn. Skapaðist oft ófremdarástand, þegar vel fiskaðist og ekki hafðist undan að koma fiskúrgangnum frá krónum.

Fyrsta fiskimjölsverksmiðjan

Gísli J. Johnsen, kaupmaður í Eyjum hafði séð, hvernig beinaúrgangur var nýttur í verksmiðjum erlendis og hann beitti sér fyrir því, að fiskimjölsverksmiðja með nauðsynlegum tækjabúnaði var sett á stofn innarlega við höfnina. Hófst rekstur verksmiðjunnar árið 1913, en hún mun hafa verið sú fyrsta þessarar gerðar í landinu. Stór reykháfur var byggður við verksmiðjuna árið 1925, sem setur mikinn svip á hana. Fiskimjölsverksmiðjan starfar enn í dag með ýmsum breytingum á húsakynnum og tækjabúnaði eftir rúmlega 100 ára rekstur.

Gellupeyjar

Við austanverða fiskimjölsverksmiðjuna, gúanóið, var um miðja 20. öldina komið steypt plan fyrir fiskúrgang. Þegar vel fiskaðist á vertíð, mynduðust oft stórar hrúgur með úrgangi, sem beið þess að komast inn í verksmiðjuna og umbreytast í fiskimjöl. Slíkar hrúgur urðu víðar til á hafnarsvæðinu. Strákar í Eyjum komust fljótlega í raun um, að þarna væru verðmæti, sem þeir gætu og máttu nýta í eigin þágu. Til varð ný stétt, svokallaðir gellupeyjar, sem mættu þarna jafnvel daglega til þess að gella. Aðeins þurfti gelluvagn, kassa úr tré, með a.m.k. tveimur hjólum sem hægt væri að ýta á undan sér. Spítu var komið fyrir í einu horninu með gogg á endanum, þorskhaus settur á hann og skorinn vöðvi undir kjaftinum, gellan, þannig að hann sat eftir á goggnum. Á þennan hátt söfnuðu gellupeyjar gellum í vagninn, en síðan var haldið með hann í söluferð um bæinn og gengið í hús. Gellupeyjar voru mest áberandi á götum bæjarins, þegar landburður var af fiski og vertíð stóð sem hæst með iðandi mannlífi við hafnarsvæðið. Stétt gellupeyja lifði í áratugi langt fram á seinustu áratugi 20. aldarinnar og var kærkomin viðbót í flóru mannlifsins hjá húsmæðrum bæjarins, þegar gellur þóttu herramannsmatur.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar