Leiðin í Vestmannaeyjum

Leiðin var seinasti spottinn á siglingunni inn í Vestmannaeyjahöfn og blasir við, þegar gengið er eftir eystri hafnargarðinum, Hringskersgarðinum. Frá öndverðu var höfnin í Eyjum opin á eina vegu fyrir úthafsöldu Atlantshafsins og ríkjandi austanáttum, sem fylgdu henni alla leið inn í Botn. Þurftu sjómenn ósjaldan að berjast við ölduna, en hættuleg sandrif og grynningar gerðu Leiðina einnig torfæra. Á fyrstu áratugum 20. aldar voru byggðir hafnargarðar til þess að hefta þennan atgang öldurótsins og verja bátaflota eyjaskeggja. Tókust nú óheft náttúruöflin á við þessa manngerðu garða og í endurkasti öldunnar við Heimaklett varð Leiðin oft ólgandi stórsjór í austan vonskuveðri. Í þeim atgangi háðu fiskibátar eyjamanna lokaglímuna, þegar þeir hentust til og frá í öldurótinu, hurfu jafnvel í sjávarlöðrið um stund uns þeim skolaði upp aftur og komust í var fyrir innan hafnargarðana. Á fyrstu áratugum vélbátaútgerðar og eflaust fyrr hópuðust eyjamenn á Skansinn til þess að fylgjast með þeim lokahnykk, þegar bátarnir lögðu í Leiðina, einn af öðrum, í lok veiðiferðar. Margir urðu leiknir í að þekkja siglutré og ljós og gátu nefnt bátana úr mikilli fjarlægð. Flestir biðu í ugg og ótta, sérstaklega þegar komið var myrkur, og enn bátar ókomnir í höfn. Í dag er þessi hildarleikur að baki, Leiðin sem kyrrt sjávarlón. Hraunið úr Heimaeyjargosinu 1973 lagðist með öllum sínum þunga að hafnarmynninu og lokaði endanlega fyrir óheftan aðgang Atlantshafsöldunnar inn í höfnina.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar