Botninn í Vestmannaeyjum

Botninn var innsti og vestasti hluti hafnarinnar í Vestmannaeyjum, sandfjörur og sandflatir, sem nú eru horfnar fyrir bryggjum og athafnasvæðum Friðarhafnar.

Skrúfan

Innst í Botninum, skammt norðan Skiphella blasir við há varða steypt undir skipsskrúfu. Skrúfan er úr fyrsta björgunar- og varðskipi Íslendinga, Þór. Mikil umræða fór fram um þörf fyrir slíkt skip í Eyjum á öðrum áratugi seinustu aldar til þess að koma til móts við ört vaxandi sjávarútveg, þar sem fjöldi báta og mannslífa hvarf í hafið á hverri vertíð. Fyrstu 17 ár 20. aldar höfðu t.a.m. 160 sjómenn drukknað á bátum, sem gerðir voru út frá Eyjum. Þá var ásókn erlendra skipa á eyjamið mikil, en þau fiskuðu nánast uppi í landssteinum og hirtu oft lítið um það, hvort veiðarfæri eyjabáta væru þvælast fyrir þeim! Gekk á ýmsu að eiga við erlenda veiðiþrjóta, sem fiskuðu oft að vild innan landhelgismarka. Þór kom til landsins 1920, og varð þar með fyrsti vísir að íslenskri landhelgisgæslu. Rekstur skipsins varð fljótlega þungur fyrir lítið bæjarfélag, en íslenska ríkið tók hann yfir að fáeinum árum liðnum. Þór sinnti hlutverki sínu vel og dyggilega, þar til skipið strandaði og sökk í Húnaflóa 1929. Eyjamönnum áskotnaðist skrúfan mörgum áratugum síðar og fundu henni stað gegnt hafnarmynninu, þar sem hún snérist forðum í ölduróti Atlantshafsins til bjargar íslenskum sjómönnum.

Æfingasvæði Herfylkingarinnar

Botninn einkenndist áður fyrr af sandbreiðum sem teygðu sig í norður og austur eftir sunnanverðu EiðinuHeimakletti. Þarna hafði náttúran myndað flatir úr svörtum sjávarsandinum sem stungu í stúf við hrjóstrugt hraungrjótið sem víða einkenndi landslagið á Heimaey. Flatlendi af slíkri stærðargráðu dró til sín mannamót s.s. Herfylkingu kapteins Kohl en sá félagsskapur varð til eftir miðja 19. öld og var m.a. fyrsti vísir að löggæslu- og varnarliði í Eyjum. Herfylkingin æfði vopnaburð, líkamshreysti og íþróttir á sandflötunum í Botninum undir strangri leiðsögn kapteinsins. Þótti tilvist fylkingarinnar mikill menningarauki fyrir eyjarnar hvar sem liðsmenn hennar fylktu liði í skipulögðum röðum undir fánum, íklæddir sérstökum búningum með vopn sín og verjur. Æfingasvæði Herfylkingarinnar voru einnig víðar á Heimaey, en starfsemi hennar leið smám saman undir lok eftir dauða kapteins Kohl 1860.

Æfinga- og keppnissvæði fyrir íþróttir

Eftir miðjan fjórða áratug 20. aldar var merki Herfylkingarinnar aftur haldið á lofti í Botninum. Að þessu sinni voru „vopnin“ eingöngu fólgin í tólum og tækjum til líkamsiðkunar. Íþróttafélögin í bænum höfðu forgöngu um að slétta úr sandbreiðunum og mynda völl eða velli til íþróttaiðkunar, einkum bolta- og frjálsra íþrótta. Þáverandi formaður KV, Einar ríki Sigurðsson, var einn aðalhvatamaður og verkstjóri að framkvæmdum þarna í Botninum sem bættu verulega aðstöðuna fyrir íþróttafélögin. Vellirnir dugðu þó skammt gegnt vindum, ölduróti og fótatraðki og voru aflagðir um 1950. Sandurinn var laus í sér, þoldi illa atgang mannfólks og náttúru og íþróttaiðkendur leituðu því fyrr en varði athvarfs á öðrum, vandfundnum flötum á Heimaey.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar