Vestmannabraut 76 í Vestmannaeyjum

Síðasta sjókonan

Katrín Unadóttir byggði húsið Vestmannabraut 76 í félagi með hjónunum Magnúsi K Magnússyni síðar netagerðarmeistara og konu hans Þuríði Guðjónsdóttur, og flutti inn með þeirri fjölskyldu ásamt dóttur sinni árið 1927.  Katrín er talin síðasta sjókonan í Rangárvallasýslu, en hún var fædd árið 1878 og hafði ung að árum stundað sjóróðra frá Rangársöndum.  Þótti slík iðja „að stunda veiðiskap“ svo sérstæð fyrir konu að þess var sérstaklega getið um Katrínu í manntali frá árinu 1901.  Katrín gerðist sjókona í ítrustu neyð til þess að sjá heimili systur sinnar og þremur ungum börnum hennar farborða.  Tókst Katrínu að fá skipsrúm á opnum báti og mætti niður í Sand með skinnbrók og handfæri, sem henni hafði á einhvern hátt áskotnast.  Hins vegar vantaði hana bæði skinnstakk og hatt og var talið ótækt að láta hana róa „verjulausa að ofan“.  Ráfaði hún um í angist í flæðarmálinu og þá gerðist það óvænta, að hún kom auga á sjóstakk, sem rekið hafði upp í sand!  Forsjónin hafði lagt blessun sína yfir Katrínu og atvikið geymdist í minni sem svar „æðri máttarvalda“ við neyð hennar og „kraftaverk“.  Hún reyndist mikill sjósóknari, gaf karlmönnum hvergi eftir,  „rösk, ósérhlífin og dugleg til allra verka og vel fiskin“.

Í aðgerð og fiskvaski

Katrín kom til Eyja undan Eyjafjöllum árið 1903 og gerðist verkakona, stundum skráð lausamaður.  Hún giftist Páli Einarssyni frá Nýjabæ árið 1917, en hann fórst ári síðar 3. mars 1918 með vélbátnum Adólfi.  Síðar sama ár eignaðist Katrín dótturina Pálínu Kristjönu Guðleifu Pálsdóttur. Þær mæðgur bjuggu víða í bænum þar til þær fluttu loks inn í eigið hús við Vestmannabraut 76.  Katrín stundaði ekki sjóinn í Eyjum en vann fyrir sér í aðgerð og fiskvaski og þótti þar hamhleypa til verka eins og í sjóróðrum forðum.  Á efri árum keypti hún sér prjónavél og gerðist ein af prjónakonum í bænum.  Þessi fyrrverandi og síðasta sjókona í Rangárvallasýslu lést 8. ágúst 1950.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar