Fögruvellir í Vestmannaeyjum
Sigurður Vigfússon bjó í tómthúsinu Fögruvöllum á áratugunum fyrir og eftir 1900. Tómthús voru bústaðir án afnota af jörð fyrir fólk, sem oft átti skamma dvöl í sjávarplássi eins og í Eyjum. Tómthús Sigurðar Vigfússonar er löngu horfið, en það stóð austan við núverandi Fögruvelli við Miðstræti, við hlið Litlabæjar, nokkrum metrum frá Drífanda og Brimbergi og örskammt frá Landlyst, Valhöll og Pöllunum neðan Strandvegar. Sigurður var fæddur 1851 og lést 1934 og þekktur í Eyjum, þar sem hann lifði og starfaði alla tíð, undir nafninu Siggi Fúsa. Siggi Fúsa átti eina af fjölmörgum króm við höfnina, þar sem fiskur var verkaður og veiðarfæri geymd. Árið 1920 bar svo til, að bátur frá Stokkseyri lagðist að bryggju í Vestmannaeyjum og úr bátnum skaust rotta, sem lagði á rás upp bryggjuna og að krónum. Hófst eltingarleikur við dýrið, enda rottur þá enn ekki numið land í Eyjum og orðspor þeirra væntanlega miður gott! Vildu menn uppræta skepnuna, sem endaði með því að hún hvarf inn í kró Sigga Fúsa. Þar mun hafa verið trégólf, sem einhverjir vildu rífa upp, en eigandinn var því mótfallinn. Var eltingarleiknum þar með hætt, enda rottan ein á ferð og fjölgun vonandi ólíkleg. Reyndist þetta mat manna rangt því þessi fyrsti landnemi rottunnar var kominn til frambúðardvalar á Heimaey! Með ákvörðun sinni varð Siggi Fúsa þar með bjargvættur þessa nagdýrs í Eyjum og fjölgaði þeim dýraflokki um einn með ákvörðun sinni!
Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is