Frydendal í Vestmannaeyjum
Bókhneigður embættismaður
Sigfús Maríus Johnsen var fæddur í Frydendal 1886, einn af 5 bræðrum, en þeirra elstur var Gísli J. Johnsen, athafnamaður og frumkvöðull. Sigfús varð snemma bókhneigður og hélt ungur til náms í Latínuskólann, sem hann þó stundaði að mestu leyti utanskóla. Eftir stúdentspróf fór Sigfús til Kaupmannahafnar, þar sem hann lauk lögfræðinámi 1914. Eftir heimkomu til Íslands varð Sigús embættismaður í höfuðborginni, en 1940 varð hann bæjarfógeti næstu 9 árin í sínum gamla heimabæ.
Fræðimaður og rithöfundur
Ritstörf urðu Sigfúsi fljótt hugleikin og helgaði hann sig þeim meira og minna fram til dauðadags 1974. Flest það er Sigfús reit tengjast fræðigreinum og ritum um Vestmannaeyjar, en í þeim flokki er Saga Vestmannaeyja, sem kom fyrst út 1946 í tveimur bindum. Eru bækur þessar hafsjór af fróðleik um sögu og mannlíf í Eyjum frá því að þær byggðust. Síðar gaf Sigfús út sögulegar skáldsögur, Herleiddu stúlkuna 1960, sem byggð er á Tyrkjaráninu 1627 og Uppi var Breki 1968, þar sem sögusviðið er einnig Vestmannaeyjar. Loks skrifaði Sigfús ævisögu sína, Yfir fold og flæði, sem kom út árið 1972. Sonarsonur Sigfúsar var Sigfús Jóhann Johnsen, jarðvísindamaður, sem hlaut fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar á djúpkjörnum úr Grænlandsjökli.
Frydendal
Húsið Frydendal var til a.m.k. frá fyrri hluta 19. aldar og var rekið um miðja öld og framvegis sem hjúkrunar- og veitingahús af danskri konu, þekktri í Eyjum undir nafninu Madama Roed. Þá var húsið einnig nefnt Vertshúsið í samræmi við þá starfsemi, sem þar fór fram. Madama Roed var brautryðjandi í garðrækt og mun m.a. hafa kennt Eyjamönnum að rækta kartöflur. Eftir daga dönsku frúarinnar í Frydendal eignuðust húsið foreldrar Sigfúsar M. Johnsen og þeirra bræðra og héldu þar áfram rekstri hjúkrunar- veitinga- og gistihúss auk ýmissa annarra starfa við sjávarsíðuna. Eftir 1880 rifu þau hjón húsið og byggðu tvílyft timburhús, sem gjarnan var nefnt Húsið vegna umfangs þess og stærðar í samanburði við önnur hús í bænum. Í því húsi átti Sigfús M. Johnsen sín æsku- og uppvaxtarár. Gísli bróðir hans hóf síðar um aldamótin 1900 verslunarrekstur í húsinu, sem var upphafið að stórbrotnum umsvifum hans í Eyjum á fyrstu áratugum nýrrar aldar. Örfáum húslengdum frá Frydendal og á sama tíma óx úr grasi Júlíana Sveinsdóttir, sem síðar varð þekkt mynd- og veflistarkona.
Bjarmi og eldgos
Húsið Frydendal var rifið 1975 í kjölfar Heimaeyjargossins 1973, en hafði þá verið breytt nokkuð, skipt um nafn og hét Bjarmi. Bjarmi var verslunarhús í eigu Helga Benediktssonar, athafnamanns, og stóð nokkrum húsbreiddum sunnar en Frydendal, en húsið hafði þá verið fært úr stað árið 1928 við mótun Miðstrætis, götunnar, sem varð framtíðarstaður þess. Bjarmi stóð gegnt húsinu Hól, sem enn stendur, hinum megin götunnar, byggt áratugum síðar. Hrauntunga úr gosinu náði að skemma 20. aldar mynd þessa svæðis, þar sem stórt hús í eigu sjávarútvegsfyrirtækjanna i Eyjum á horni þriggja gatna með bílastæðum stendur nú í stað lítilla húsa, bakhúsa, stíga og slóða, sem þarna voru. Bjarmi og nágrenni hans var hluti rúntsins í Eyjum á 20. öldinni, þar sem mannlíf miðbæjar blómstraði með verslunum, sjoppum og alls kyns þjónustustarfsemi.