Flatirnar í Vestmannaeyjum

Sandflatir

Flatirnar, voru svæði undir Stóra Klifi, sem teygði sig til suðurs og austurs, væntanlega svo langt austur þar sem nokkur íbúðarhús voru reist á fyrri hluta seinustu aldar nokkru fjarri annarri íbúabyggð. Húsin standa við götu sem ber einmitt nafnið Flatir.  Svo sem nafnið ber með sér voru Flatirnar flatlendi, þar sem mjúkur sjávarsandurinn skar sig úr frá hrjóstugu hrauninu, sem setti stóran svip á undirlendi Heimaeyjar.  

Vatnspóstar

Engar ár, vötn eða lækir var að finna á Heimaey og þurftu eyjaskeggjar að verða sér úti um vatn með ýmsum leiðum fyrr á öldum. Tjörn var í Herjólfsdal og önnur minni austur á eyju, Vilpan, þar sem yfirborðsvatn safnaðist fyrir eftir að hafa seytlað í gegnum jarðlög. Grafnir voru brunnar þar sem vatn safnaðist fyrir í og þóttu Flatirnar heppilegar til þessa. Fyrsti brunnurinn mun hafa verið í nágrenni við Langaberg, norður af Skiphellum og upp af Flötunum. Þangað hafi vatn verið sótt í eins til tveggja metra djúpan brunn á 18. öld og konur þvegið þar þvotta sína.  Eftir að járndælu var komið fyrir við brunninn af þeirri gerð, sem Eyjamenn kölluðu pósta, festist nafnið Póstflatir við staðinn. Síðar varð staðurinn nefndur Gamli póstur til aðgreiningar frá Nýja pósti, sem gerður var nokkru austar.

Mannamót

Flatirnar þóttu hentugar til mannfagnaðar, en þar voru haldnar álfabrennur með blysför, álfakóng, drottningu, álfum, brennu og söng, væntanlega um eða eftir áramót. Mun þessi siður hafa breiðst víða um land á 19. öldinni og var aðalskemmtunin í Eyjum þar til Þjóðhátíðin í Herjólfsdal tók við því hlutverki seint á öldinni. Um miðja 20. öldina var þessi gamli siður endurvakinn, þ.e, álfabrennur og blysfarir, og var miðpunktur skemmtanahalda þá sunnar á “hálendi” Heimaeyjar, þar sem knattspyrnuvöllur hafði verið gerður í Löngulág. Skemmtanir af öðru tagi voru einnig á Flötunum svo sem bændaglíma. Var t.a.m vinsælt að leiða saman lið landsmanna við heimamenn, þar sem sjávarsandurinn tók mjúklega við byltum glímumanna og áhorfendur gátu fylgst með af sandhólum í kring, þegar glímukóngur var borinn á gullstóli.

Kartöflurækt

Garðyrkja og þar með talin kartöfurækt varð ekki almenn á Íslandi fyrr en í upphafi 19. aldar. Upphaf kartöfluræktar í Eyjum er tengt danskri konu, Ane Johane Gruner, sem kom til Eyja árið 1834 og festi þar rætur. Hún tók síðar upp nafn seinni eiginmanns síns, Roed, og rak með honum veitinga- og sjúkrahús í Frydendal. Madame Roed, eins og frúin var jafnan kölluð, mun hafa átt frumkvæði að því að rækta kartöflur í Eyjum og talið Flatirnar ákjósanlegar fyrir slíka iðju. Kartöflurækt varð síðar mjög almenn á Heimaey, á hinum hefðbundnu jörðum bænda og fyrir almenning á ákveðnum svæðum. Voru t.a.m. stór svæði með kartöflugörðum á Flötunum um miðja 20. öldina, sem teygðu sig nánast alla leið frá Skiphellum og austur í þáverandi flæðarmál, á þær slóðir þar sem Fiskimjölsverksmiðjan var síðar reist. Þá voru garðar víða í Ofanleitishrauni vestur á eyju fram eftir öldinni. Hefur kartöflurækt nú að mestu lagst af á Heimaey.

Fljótlega á 20. öldinni sóttu ýmis konar fyrirtæki sér bólfestu á Flötunum og hélt sú þróun áfram eftir öldinni. Í dag hefur öllu þessu svæði verið umbylt með gerð Friðarhafnar, stórum hafnarsvæðum, atvinnuhúsum og götum. Aðeins nærliggjandi klettar og fjallahlíðar halda enn svipmóti fortíðar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar