Hamarinn í Vestmannaeyjum

Hamarinn var afmarkað hamrabelti, hluti Ofanleitishamra, sem eru sæbrattir hamrar austur af Ofanleiti og suður að Torfmýri. Á áratugunum um miðja 20. öldina og fram undir 1980, var Hamarinn sorphaugar eyjamanna, en rusli var ekið vestur á eyju, „út á Hamar“ og því sturtað eða hent fram fyrir björg frá steyptum brautum, sem enn má sjá. Var sjávaröldunni ætlað það hlutverk að bera úrgang frá ört vaxandi, kraftmiklu bæjarfélagi á haf út, sem hún og gerði einkum, þegar brimaði. Tókst úthafsbriminu á slíkum stundum að kaffæra heilu bílfarmana í sjávarlöðri, en jafnframt að kasta ruslinu lengst upp í klappir, þar sem það festi rætur til langframa. Urðu hamrarnir í nágrenni við sturtubrautirnar smám saman rækilega merktir mannfólkinu með alls kyns drasli. Þessar aðstæður drógu m.a. til sín forvitna peyjahópa, sem lögðu á sig göngur úr bænum til þess að geta gramsað heilu og hálfu dagana í ruslahaugunum og gleymt stað og stund! Upp úr 1980 var Hamarinn lagður af sem ruslahaugar og hann hreinsaður, en sorpeyðingarstöð reist í kjölfarið á nýja hrauninu frá Heimaeyjargosinu 1973. Í dag má enn merkja lúnar leifar úrgangs, sem minna á fyrra hlutverk Hamarsins, og grasi grónar, mosavaxnar sturtubrautir bera fortíðinni vitni.

 

Skildu eftir svar