Kirkjuhvoll í Vestmannaeyjum

Læknisbústaður

Kirkjuhvoll var byggður árið 1911 og stóð þá utan helstu húsaþyrpingarinnar á Heimaey. Læknirinn í Eyjum, Halldór Gunnlaugsson og fjölskylda hans, voru fyrstu íbúar hússins, en síðan hafa margar fjölskyldur átt þar heima. Halldór Gunnlaugsson var skipaður héraðslæknir í Vestmannaeyjum árið 1906 og gegndi því starfi til 1924, er hann drukknaði ásamt 7 öðrum mönnum við Eiðið. Var sá atburður lengi í minnum hafður og er í raun enn, enda gerðist hann nánast við bæjardyrnar og sjónarvottar að þeim hildarleik.

Fyrstu reiðhjólin

Halldór læknir mun hafa flutt inn fyrsta reiðhjólið til Eyja 1907, sem var með loftfylltum gúmmíslöngum innan í þunnum gúmmíhringjum, en enskur skipstjóri hafði áður á árunum 1894- 1895 prófað hjól með heilu gúmmíi án slöngu. Reiðhjól Halldórs reyndist hinn mesti þarfagripur, sem hann notaði á ferðum sínum um Heimaey til þess að vitja sjúklinga sinna. Gúmmíslöngurnar á hjóli hans hafa eflaust fjaðrað betur á holóttum og grýttum götuslóðunum en slöngulaus dekkin á hjóli þess enska, því ýmsir fylgdu í hjólför læknisins og fengu sér reiðskjóta. Árið 1911 munu 10-12 reiðhjól hafa verið til í Eyjum, svo hægt var að efna til hjólreiðakeppni sem skemmtiatriði á 17. júní, þá fyrstu á eyjunni. Hjólað var frá Norðurgarði, framhjá Landakirkju og niður í bæ að Heimatorgi, sem fór undir hraun í Heimaeyjargosinu. Flykktist fólk að Kirkjuveginum til þess að fylgjast með, en sigurvegarinn fékk bók að launum.

Eiginkona Halldórs Gunnlaugssonar var Anna Gunnlaugsson, sem rak til langs tíma vefnaðarvöruverslunina Frú Gunnlaugsson í hjarta bæjarins að Bárustíg 3.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar