Sigmundarsteinn í Vestmannaeyjum

Sigmundarsteinn er í urð undir Kervíkurfjalli, sem Jónas Hallgrímsson kvað vísur um og sá þar „hafmeyjar“ og Jón píslarvott:

Veit ég úti í Vestmannaeyjum
verður stundum margt í leyni;
séð hef ég þar setið vera
Sigmundur á votum steini.

Hárið sítt af höfði drýpur
hafmeyjar í fölu bragði;
augun sneri hún upp að landi
og á brjóstið hendur lagði.

Viti menn að vogameyjar
vondar síst eru draugaskottur;
sat hjá henni’ í síðum klæðum
síra Jón minn píslarvottur

Hafmeyjan og síra Jón píslarvottur, sem Tyrkir drápu árið 1627, taka tal saman, syngja og flytja friðarbæn.  Umræðu- og söngefnið er Tyrkjaránið ógurlega, en frá Sigmundarsteini er stutt í Ræningjatanga, þar sem skip Tyrkja lögðu að landi, og Lyngfellisdalur er skammt ofan Kervíkurfjalls, en þar áttu ræningjarnir frá Miðjarðarhafinu að hafa þurrkað púður sitt.  Þetta er sögusvið harmleiks, sem hið ástsæla þjóðskáld setur í búning leyndar og dulúðar því byssumaður bíður við næsta leiti!

*

Hvað varð þess valdandi að Jónas Hallgrímsson valdi sér stein á fáförnum og illfærum stað í grjóturð suður á Heimaey sem sögusvið ljóðs? E.t.v. réðu einfaldlega bragreglur, sem steinninn féll vel að? Hins vegar má ætla að Jónas hafi haft í huga nálægð steinsins við örlagaþrungin sögusvið Tyrkjaránsins. Jónas þekkti til í Eyjum eftir að hann dvaldist þar sumarlangt árið 1837 við rannsóknarstörf á náttúru eyjanna og kann að hafa klöngrast niður að Sigmundarsteini til þess að skoða jarðlög og jarðmyndanir á staðnum. Hann bjó hjá séra Jóni Austmann á Ofanleiti og eflaust hefur presti og listaskáldinu góða farið á milli ýmislegt fleira þetta sumar en jarðsaga eyjanna.

*

Árið 1967 fórst flugvél í Kervíkurfjalli, ofan við þann stað, sem Jónas Hallgrímsson sá Jón píslarvott fyrir sér.

1 Response

  1. Essbald skrifar:

    Skemmtileg færsla Birgir.

Skildu eftir svar