Skálholt

Skálholt er bær, kirkjustaður og biskupssetur í Biskupstungum í Árnessýslu. Skálholt er einn sögufrægasti staður landsins og mögulega fyrsti þéttbýlisstaður Ísland. Sem helsta fræðasetur og miðstöð kirkjustjórnunar í landinu í 700 ár má segja að Skálholt hafi verið höfuðstaður landsins um aldir. Hér sat fyrsti biskup landsins, Ísleifur Gizurarson (1006-1080) og hér var síðasti kaþólski biskup landsins, Jón Arason, tekinn af lífi. Hér stóð stærsta kirkja landsins og hér var fyrst á Íslandi haldið úti reglulegu skólastarfi til lengri tíma.

Aftaka Jóns Arasonar og sona hans
Minnismerki um Jón Arason

Eftir að Daði frá Snóksdal handtók Jón Arasona biskup og syni hans Björn og Ara að Sauðafelli í Miðdölum sumarið 1550 kom hann þeim í hendur Kristjáns skrifara í Skálholti þar sem hann óttaðist að Norðlendingarn myndu senda lið til að frelsa biskup sinn. Kristján skrifari óttaðist greinilega það sama og eftir að hafa ráðfært sig við Jón Bjarnason Skálholtsráðsmann, sem taldi að jörðin og öxi geymdi þá feðga best, þá ákvað Kristján að láta hálshöggva þá. Þann 5. nóvember 1550 voru þeir feðgar hálshöggnir hér í Skálholti af Jóni nokkrum Ólafssyni. Jón böðull lét lífið þegar Norðlendingar handtóku hann á Álftanesi og helltu ofan í hann heitu blýi eða biki. Árið 1912 var reistur minnisvarði um Jón Arason biskup á aftökustað hans. Ensk kona, Dissney Leath, lét reisa minnismerkið á eigin kostnað.

Jarðskjálftarnir 1784
Finnur Jónsson biskup

Skálholtsstaður fór mjög illa í Suðurlandsskjálftanum 1784 og hrundu flest hús á staðnum. Alls lagði jarðskjálftinn 93 bæi í rúst á Suðurlandi. Skólahald í Skálholti lagðist af en Finnur Jónsson biskup hélt til í Skálholti um veturinn ásamt hluta af starfsfólki sínu. Í framhaldinu var biskupsembættið flutt til Reykjavíkur og ákveðið var að byggja Dómkirkjuna í Reykjavík. Skólinn var einnig endurreistur á Hólavöllum í Reykjavík. Gekk skólinn undir nafninu Hólavallaskóli þar til hann var fluttur að Bessastöðum árið 1805.

Fornleifafundur
Kista Páls biskups

Árið 1954 varð einstakur fornleifafundur í Skálholti þegar kista Páls Jónssonar biskups (1155-1211), sonar Jóns Loftssonar fóstra Snorra Sturlusonar, fannst í kirkjugarðinum í Skálholti. Tilefni rannsóknanna var bygging nýrrar dómkirkju á staðnum. Dr. Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands og þjóðminjavörður, hafi yfirumsjón með rannsókninni. Er fundur steinkistunnar talinn einn almerkilegasti fornleifafundur í sögu Íslands. Í kistunni fannst beinagrind og krókur af biskupsstaf. Er steinkirkjan til sýnis almenningi í kjallara kirkjunnar.

Lýðháskóli

Á árunum 1972-1987 var rekinn kirkjulegur lýðháskóli í Skálholti, Skálholtsskóli. Fyrsti rektor skólans var séra Heimir Steinsson en hann gengdi starfinu til ársins 1982. Biskup Íslands var formaður skólanefndar skólans en kirkjuráð fór með málefni skólans gagnvart menntamálaráðuneytinu. Um skólann má lesa í B.A.-ritgerð Bjarneyjar Kristínar Ólafsdóttur, Lýðháskólar: Hugmyndafræði – Saga hér á landi.

Skildu eftir svar