Sauðafell í Miðdölum

Mynd ESSBALD

Sauðafell er sögufrægur bær í Miðdölum í Dalasýslu sem stendur undir samnefndu felli. Meðal þekktra ábúenda á Sauðafelli á landnáms- og söguöld má nefna Erp Meldúnsson, leysinga Auðar Djúpúðgu, Þórólf Raunef, Mána, son Snorra goða, þá feðga Sighvat Sturluson og Sturlu Sighvatsson og tengdason Sturlu Hrafn Oddsson hirðstjóra. Talið er að mikið virki hafi staðið í landi Sauðafells á Sturlungaöld.

Sauðafellsför (13. öld)

Eitt af níðingsverkum Sturlungaaldar var framið á Sauðafelli árið 1229 þegar synir Þorvaldar Vatnsfirðings réðust að næturlagi inn í bæinn og drápu marga heimilismenn og særðu aðra  í hefndarskyni fyrir dráp föður þeirra. Þegar þetta gerðist var Sturla Sighvatsson að heiman en Vatnsfirðingar þyrmdu konu hans sem lá á sæng. Hefur þetta níðingsverk gengið undir nafninu Sauðafellsför. Þremur árum síðar, í ársbyrjun 1232, lét Sturla drepa þá bræður skammt frá Sauðafelli, nánar tiltekið milli Bæjar og Hundadals.

Handtaka Jóns Arasonar biskups og sona (16. öld)

Á Sauðafelli handtók Daði Guðmundsson í Snóksdal Jón Arason biskup og syni hans árið 1550 og kom þeim í hendur Kristjáns skrifara (Christian Schriver), umboðsmanns konungs í Skálholti. Þeir feðgar voru hálshöggnir í Skálholti 7. nóvember sama ár. Bók Ólafs Gunnarssonar, Öxin og jörðin, sem fjallar um þessa og tengda atburði, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003. Sjá einnig færsluna Árið 1550.

Listamenn á Sauðafelli (19. og 20. öld)

Hér  fæddist skáldið, þýðandinn og kennslubókarhöfundurinn Jakob Jóhannesson Smári þann 9. október árið 1889. Foreldrar hans voru Jóhannes L. L. Jóhannsson prestur á Kvennabrekku og Steinunn Jakobsdóttir frá Sauðafelli. Jakob ólst upp á Kvennabrekku til fimm ára aldurs en þá var hann tekinn í fóstur af hjónunum á Þórólfsstöðum í Miðdölum. Þegar fóstri hans féll frá fjórum árum síðar flutti hann með fóstru sinni til Sauðafells til Björns Bjarnarsonar sýslumanns. Í bók sinni um listamanninn  Mugg (Guðmund Thorsteinsson) segir Björn Th. Björnsson frá því að þegar Muggur dvaldi hjá móðursystur sinni Theódóru Thoroddsen á Kvennabrekku hafi hann málað myndir á Sauðafelli, m.a. af útsýninu fram í Hundadali.

Skildu eftir svar