Þvottalaugarnar í Laugardal

Heitu laugarnar í Laugardalnum tilheyrðu hinu forna býli í Laugarnesi (sjá einnig færsluna Laugarnes).  Ekki fer mörgum sögum af því hvernig fornmenn nýttu sér laugarnar en vitað er að á seinni hluta 18. aldar gengu reykvískar húsmæður og vinnukonur inn í Laugardal með þvott sinn.

Þvottalaugar, sundlaug og húshitun
Gömlu sundlaugarnar

Fyrsta þvottahúsið var reist hér árið 1832 eða 1833 en það fauk 1857 og annað þvottahús var ekki reist fyrr en árið 1887. Með tilkomu vatnsveitunnar 1909 dró mikið úr ferðum húsmæðra í laugarnar  og enn frekar þegar farið var að veita heitu vatni í hús í Reykjavík í kringum 1930. Um 1960 voru þvottalaugarnar færðar í sitt fyrra horf og af því tilefni var afhjúpuð stytta á svæðinu eftir Ásmund Sveinsson, Þvottakonan, til minningar um þvottakonurnar. En heita vatnið í Laugardalnum nýttist til fleiri hluta en þvotta. Fyrsta steinsteypta sundlaugin á Íslandi var byggð í Laugardalnum árið 1908 og var hún í notkun þar til ný og glæsileg laug, Laugardalslaugin, leysti hana af hólmi árið 1968. Fyrsta byggingin sem hituð var með vatni frá dælustöðinni í Laugardal var Austurbæjarskólinn við Barónsstíg.

Skildu eftir svar