Möðruvellir í Eyjafirði
Möðruvellir eru fornt höfðingjasetur og kirkjustaður í Eyjafirði. Staðurinn kemur við sögu í nokkrum Íslendingasögum enda sátu hér höfðingjar eins og Guðmundur ríki Eyjólfsson og bróðir hans Einar Þveræingur, sem er hvað þekktastur fyrir að hafa komið í veg fyrir kaup Noregskonungs á Grímsey.
Ari Jónsson Arasonar biskups
Á 16. öld bjuggu hér hjónin Halldóra Þorleifsdóttir, dóttir Þorleifs Grímssonar sýslumanns, og Ari Jónsson (1508-1550), sonur Jóns Arasonar biskups á Hólum. Ari var hálshöggvinn í Skálholti árið 1550 ásamt föður sínum og bróður. Dóttir Halldóru og Ara var Helga, hin skapmikla eiginkona Staðarhóls-Páls Jónssonar. Eftir lát Ara ólst Helga upp hjá Þórunni föðursystur sinni á Grund. Sjá einnig færsluna Staðarhóll.
Kirkjan, altaristaflan og klukknaportið
Núverandi kirkja á Möðruvöllum var byggð 1847-48 en klukknaport við kirkjuna er frá árinu 1781. Klukknaportið er eitt elsta mannvirkið úr timbri hér á landi. Í kirkjunni er altaristafla sem Margrét Vigfúsdóttir gaf til staðarins seint á 15. öld. Hægt er að lesa um Margréti Vigfúsdóttur í færslunum Hólar í Eyjafirði og Spóastaðir.