Reynistaður í Skagafirði
Reynistaður er sögufrægur bær í Skagafirði, eitt af höfuðbólum Ásbirninga á Sturlungaöld. Meðal þekktra ábúenda á Reynistað voru Þorfinnur Karlsefni og kona hans Guðríður Þorbjarnardóttir, Brandur Kolbeinsson, Gissur Þorvaldsson jarl, Oddur Gottskálksson, sem gaf út árið 1540 fyrstu bókina sem prentuð var á Íslensku, og Halldór Vídalín Bjarnason, klausturhaldari og faðir Reynistaðabræðra sem urðu úti á Kili 1780.
Nunnuklaustur
Árið 1295 var stofnað nunnuklaustur á Reynistað sem starfaði óslitið til 1551. Talið er að Gissur Þorvaldsson jarl hafi gefið jörðina undir nunnuklaustur skömmu fyrir andlát sitt 1268. Klaustrið er aðeins annað tveggja nunnuklaustra sem stofnuð voru fyrir siðaskiptin, hitt var á Kirkjubæjarklaustri.
Rætur Bertels Thorvaldssen
Árið 1741 fæddist hér Gottskálk Þorvaldsson, faðir hins þekkta dansk-íslenska myndhöggvara Bertels Thorvaldssen en faðir Gottskálks, Þorvaldur Gottskálksson, starfaði sem djákni hér áður en hann var vígður prestur í Miklabæ. Sjá einnig færsluna Miklibær.
Bæjarportið
Bæjardyraportið á torfbænum á Reynistað er af torfbæ sem rifinn var árið 1935. Nýji bærinn var byggður árið 1999 nálægt þeim stað þar sem gamli torfbærinn hafði staðið. Núverandi kirkja á Reynistað er frá árinu 1870 og sagt er að Gissur jarl sé grafinn undir gólfi kirkjunnar.