Garðsstaðir í Vestmannaeyjum
Garðsstaðir við Sjómannasund í Vestmannaeyjum eru fæðingarstaður Oddgeirs Kristjánssonar, tónskálds, sem fæddist þar 16. nóvember 1911. Húsið var rifið 1969, en stóð nálægt núverandi hraunjaðri við gatnamót núverandi Njarðarstígs og Strandvegar. Þegar Oddgeir stofnaði síðar eigin fjölskyldu, bjó hann lengstum við Heiðarveg 32, í húsi sem heitir Stafnsnes. Oddgeir var drifkraftur í tónlistarsköpun eyjaskeggja á áratugunum um miðja seinustu öld, leiðtogi og kennari í tónlist. Hann varð ungur hljóðfæraleikari í lúðrasveit Vestmannaeyja og stjórnandi hennar frá 1939 til dauðadags. Lúðrasveitin gegndi stóru hlutverki í bæjarlífinu undir stjórn Oddgeirs, lék á öllum meiri háttar samkomum eyjaskeggja, s.s. á þjóðhátíð, sjómannadeginum, 17. júní auk ótal annarra viðburða. Arfleið Oddgeirs, sem mun eflaust lifa um kynslóðir, er fjöldi sönglaga eftir hann, yfirleitt nefnd þjóðhátíðarlögin, enda tilurð þeirra oftast tengd hátíðinni. Með textum eftir Ása í Bæ, Árna úr Eyjum og fleiri eru lög Oddgeirs trúlega stærsti, lifandi menningararfur í eigu Eyjamanna fyrr og síðar. Oddgeir lést á besta aldri 18. febrúar 1966.
Fæðingarstaður Oddgeirs er horfinn og allt umhverfið, þar sem Garðsstaðir stóðu. Heimaeyjargosið 1973 lagði þetta svæði í rúst, þegar þungi vikurs lagðist yfir það og hraunjaðarinn gleypti hús, stíga og götur. Eftir hreinsun að gosi loknu var reist nýbygging á horni Strandvegar og Kirkjuvegar þar sem norðurhliðin snýr að Strandveginum og að sunnan nær byggingin að Miðstræti.