Strandvegur í Vestmannaeyjum

Strandvegur er elsta gatan á Heimaey og eflaust sú fjölfarnasta fyrr og síðar. Vegurinn varð til við helsta athafnasvæðið um aldir, meðfram sjónum alla leið frá Skansinum við innsiglinguna og vestur inn í Botn. Á aðra hönd, sjávarmegin, voru skerjaklasar, klappir og klettar, sem teygðu sig mislangt út í höfnina. Hinum megin urðu til lágreist hús, tómthús, kofar og krær, sem byggðust upp í kringum sjávarútveginn, Lækinn og hrófin, og elsta verslunarstaðinn, Garðinn.

Umferð við sjávarsíðuna

Umferðin um Strandveginn til og frá sjávarsíðunni mótaði torfæran vegslóða og gerði að vegi, þar sem menn og dýr fóru um. Í upphafi 20. aldar, þegar vélbátaútgerð hófst í Eyjum, stórjókst fiskafli, sem barst að landi, og Strandvegurinn varð í auknum mæli lífæð vaxandi bæjarfélags. Allir íbúar Heimaeyjar áttu erindi um Strandveginn, en öll helstu fiskvinnsluhúsin, lifrarbræðslur og beinaverksmiðja, risu öðru hvorum megin við hann. Þá dró Strandvegurinn til sín margs konar þjónustufyrirtæki við sjávarútveginn, vélsmiðjur, dráttarbrautir fyrir báta og verslanir. Miklar vega- og hafnarframkvæmdir hafa gerbreytt undirlagi og umhverfi Strandvegarins. Á fyrstu áratugum 20. aldar var austurhluti hans lagður ójöfnum móhellum, sem voru lausar í sér og erfiðar yfirferðar. Samhliða miklum uppfyllingum og landvinningum í kjölfar þeirra síðar á öldinni hefur vegurinn færst fjær sjónum. Allt athafna- og mannlíf á Strandveginum og við hann hefur jafnframt breyst úr frumstæðu sjávarplássi í nútímalegt, tæknivætt samfélag.

Streð og list

Þótt Strandvegurinn sé fyrst og fremst um aldir tengdur streði og striti við sjávarútveg og sjósókn, kviknuðu í nágrenni við hann ýmsir sprotar, sem áttu sér aðrar rætur. Athyglisvert er, að margir af þekktustu listamönnum eyjanna eru sprottnir upp úr jarðvegi Strandvegarins eða nágrenni hans. Ef haldið er úr austri vestur veginn, skal fyrstan telja Oddgeir Kristjánsson, tónskáld, frá Garðsstöðum, en skammt fyrir ofan hann bjó Júlíana Sveinsdóttir, málari og veflistarkona frá Sveinsstöðum, fædd u.þ.b. tveimur áratugum áður í lok 20. aldar. Við gatnamót Strandvegar og Bárugötu áttu sín æskuspor snemma á 20. öldinni, Björn Th Björnsson, listfræðingur og rithöfundur í Drífanda og í næsta húsi Ási í Bæ, skáld og rithöfundur. Við hlið þeirra ólst upp nokkrum áratugum síðar, Kristinn R. Ólafsson, hálfbróðir Ása, útvarpsmaður, skáld og ritöfundur. Örlítið vestar og hinum megin götunnar óx úr grasi Engilbert Gíslason, listmálari, fæddur á Tanganum seint á 19. öldinni. Loks má nefna tvo landskunna leikara nokkru vestar, þau Rúrík Haraldsson frá Sandi og Margréti Ólafsdóttur á Flötum, fædd á 3. og 4. áratugum seinustu aldar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar