Herjólfsdalur í Vestmannaeyjum

Jónas Þór Steinarsson, Heimaklettur

Herjólfsdalur er dalverpi, umlukið Dalfjalli með Blátindi að vestan og Molda að austan. Dalurinn er nefndur eftir fyrsta landnámsmanninum í Vestmannaeyjum, sem var samkvæmt Landnámabók, bæði Sturlubók og Hauksbók, Herjólfur Bárðarson. Ekki er vitað, hvar Herjólfur gæti hafa búið í dalnum, en ýmsar getgátur hafa verið uppi um það.

Landnámssetur

Undirlendi er ekki mikið í Herjólfsdal, dalurinn er þröngur og skriður hafa hlaupið fram, blágrýti vestan úr Blátindi og móberg að austan úr Molda, sem hafa gengið á bithaga fyrir nautgripi sem búfénað. Nábýli við tjörnina, sem er eina verulega vatnslindin á Heimaey, beinir óneitanlega sjónum að henni, þegar leitað er að mögulegu bæjarstæði. Blágrýtisskriðan að vestan við klett þann, sem nefndur er Fjósaklettur, hefur vakið upp tilgátur um bæjastæði þar undir við fjós Herjólfs? Bæjartóttir aðeins austar og sunnar hafa einnig ýtt undir sams konar vangaveltur og þær sérstaklega rannsakaðar oftar en einu sinni. Á 8. og 9. áratug seinustu aldar voru rústir þessar grafnar upp og m.a. beitt nútímalegum aðferðum við að greina aldur þeirra. Í ljós kom, að a.m.k. hluti rústanna var frá 8. öld eða jafnvel þeirri 7. Setti Herjólfur Bárðarson e.t.v. bæ sinn niður, þar sem fyrir var bæjarstæði, eða eru þessar rústir ótengdar honum? Hægt er að skoða bæjarrústirnar, þótt þær hafi að mestu verið fylltar upp með ösku að greftri loknum og gróðursæld dalsins bætt um betur við að ummá þær. Árið 2006 var gerður bær skammt frá rústunum, innar í dalnum, svipaður og sá, sem Herjólfur reisti 1000 árum áður, úr grjóti, torfi og timbri.

Vatnsuppspretta

Vatnsskortur hrjáði löngum eyjaskeggja, enda fáar vatnslindir að finna á Heimaey. Tjörnin i dalnum var þó undantekning, þar þraut aldrei vatn, sem gerði hann eftirsóknarverðan fyrir búskap. Fyrsti ábúandinn, Herjólfur Bárðarson, var reyndar svo sínkur á vatnið við nágranna sína, að hann hlaut makleg málagjöld fyrir! Tjörnin var lífæð fyrir menn og skepnur til þess að lifa af um aldir. Vatnsburður og vatnsflutningar frá dalnum hefur verið fastur liður í dagsins önn, drifnir áfram af handafli, hestum, handvögnum og loks bifreiðum. Á fyrri hluta 20. aldar var nautgripum t.a.m brynnt í tjörninni og þeir reknir einu sinni á dag inn í Dal í þessu skyni víðs vegar frá Heimaey. Þá var sótt vatn í dalinn fyrir mannfólkið í bænum seinna á öldinni, síðast á tankbílum fyrir tíma vatnsleiðslna frá meginlandinu. Ört vaxandi sjávarútvegur í Eyjum fór um aldamótin 1900 að keppa við landbúnaðinn um vatnið í daltjörninni. Með auknum línuveiðum í kjölfar handfæraveiða jókst þörfin fyrir beitu, og hana þurfti að geyma í kulda. Sótt var í snjó, sem geymdur var í sérstökum snjókofum, og í ís, m.a. í hina gjöfulu tjörn í dalnum. Lögðu menn á sig að sækja hann í ískerrur eftir eina veginum þangað, sem var í raun illfær vegleysa upp fyrir Landakirkju og þaðan áfram vestur í Herjólfsdal. Náðu 3 menn um eina ískerru 3- 5 ferðum yfir daginn, og þóttu ferðir þessar jafnast á við mesta púl, sem þá þekktist. Síðar með breyttum aðferðum við ísframleiðslu varð ísi lögð tjörnin vinsælt skautasvell hjá æsku og ungdómi eyjanna.

Íþróttavettvangur

Eflaust hafa landshættir valdið því, að dalurinn varð snemma vettvangur mannamóta og hátíðarhalda. Hamraprýði er þarna mikil, vatnsból fyrir dýr og menn, unnt að slá upp tjöldum, tiltölulega slétt undir fót og grasi vaxinn dalbotn innan um hraungrýtið. Á nafndögum kirkjunnar var efnt til mannfagnaða í dalnum og Víkivakar stignir fyrr á tímum. Herfylking Vestmannaeyja, sem stofnuð var á 6. áratug 19. aldar, hélt skemmtanir í dalnum og hefur eflaust sýnt eyjaskeggjum vopnaburð, þar sem gengið var í röðum og liðsmenn sýndu æfingar til marks um líkamshreysti sína og agaða líkamsburði. Hálfri öld síðar, þegar þjóðhátíð í dalnum fer að festa sig í sessi, verða íþróttir ein helsta skemmtunin með ýmis konar keppni, kappreiðum og jafnvel kappróðrum inni í Botni. Bjargsig voru sýnd frá Fiskhellanefi, sem þóttu ein allra tilkomumesta íþrótt, sem var til skemmtunar á þjóðhátíð. Fljótlega eftir 1920 er farið að keppa um stóra titla í ýmsum greinum frjálsra íþrótta. Friðrik Jesson frá Hól, einn stærsti fulltrúi þessara greina í Eyjum í áratugi, setti t.a.m. Íslandsmet í stangarstökki á þjóðhátíðinni 1923 og urðu Eyjamenn m.a. frægir fyrir getu sína í þeirri íþrótt. Komu margir Íslandsmeistarar í kjölfar Friðriks, sem héldu titlinum úti í Eyjum næstu áratugina við mikinn fögnuð þjóðhátíðargesta, þegar metin féllu. Keppt var í fleiri íþróttagreinum s.s. hlaupum og handbolta kvenna, þar sem fræknir íþróttamenn mættu til Eyja á þjóðhátíð og voru jafnvel Íslandsmeistaramót haldin í dalnum og bæjakeppnir við Reykjavík felldar inn í skemmtanahaldið. Tengslin milli íþrótta og þjóðhátíðar voru sérstaklega sterk á 4. áratugnum, en urðu smám saman fyrirferðarminni á seinni áratugum aldarinnar þar til þau hurfu að mestu leyti.

Dalur hljómlistar

Söngur, dansar og hljóðfærasláttur hafa um aldir átt samleið í Herjólfsdal sem vettvang mannamóta og skemmtana. Dansinn var stiginn undir hljómfalli tónlistarinnar svo undir tók í björgum. Á fyrri hluta 20. aldar fór þjóðhátíðin í dalnum að geta af sér sköpunarverk í tónum sem í íþróttum og ala af sér lífsseig afkvæmi. Þjóðhátíðarlögin urðu til, sem samin voru í tilefni þjóðhátíðar ár hvert og urðu sameign Eyjamanna, þjóðhátíðargesta og landsmanna allra. Oddgeir Kristjánsson, tónskáld í Eyjum, sá um þennan þátt fyrstu áratugina, og lögin hans, oft með textum eftir Ása í Bæ, urðu mörg landsfleyg og greyptu sig inn í þjóðarsál Íslendinga. Í kjölfarið fylgdi lagasmíð margra hljómlistarmanna, sem lagt hafa sitt af mörkum í sjóð svokallaðra þjóðhátíðarlaga. Á seinni árun hefur þjóðhátíð í Herjólfsdal orðið sífellt fyrirferðarmeiri sem tónlistar- og hljómleikaskemmtun og stendur eflaust fyrst og fremst sem slík í nútímanum.

Skildu eftir svar