Hörgaeyri í Vestmannaeyjum
Eyrin blasir við, eða mannvirki, sem reist var á henni, þegar horft er frá Skansinum norður til Heimakletts. Á henni er nyrðri hafnargarðurinn í Eyjum byggður. Gissur hvíti Teitsson og Hjalti Skeggjason komu þar fyrst að landi frá Noregi árið 1000 og reistu kirkju að fyrirmælum Ólafs konungs Tryggvasonar. Kirkjan var nefnd eftir heilögum Klemensi, verndardýrlingi sæfara. 1000 árum síðar gáfu Norðmenn Íslendingum stafkirkju til minningar um atburð þennan, og var hún sett niður gegnt Hörgaeyri, sunnan við innsiglinguna við jaðar nýja hraunsins úr Heimaeyjargosinu 1973.
Skúlptúrviti á Hörgaeyrigarðinum, fyrsti sinnar tegundar á Íslandi, var vígður á sjómannadeginum 1993. Eftir að garðurinn hafði verið styttur um 60 metra og innsiglingin dýpkuð var nýr viti reistur á honum sem var í senn leiðarljós að innsiglingunni og listaverk. Í stað hefðbundins vita taka fimm súlur nú á móti sjófarendum eða kveðja þá, ein að stinga sér og hinar tilbúnar að hefja sig til flugs. Skúlptúrinn er eftir Grím Marinó Steindórsson.