Valþjófsstaður

Valþjófsstaður er fornt höfðingjasetur og kirkjustaður í Fljótsdal. Snemma reis hér kirkja og í kaþólskum sið sátu hér tveir prestar og tveir djáknar. Á 13. öld var Valþjófsstaður eitt af höfuðbólum Svínfellinga. Hér fæddist rithöfundinn Gunnar Gunnarsson.

Höfuðból Svínfellinga

Á Sturlungaöld var  hér var eitt af höfuðbólum Svínfellinga en þá bjuggu hér bræðurnir Oddur Þórarinsson (d. 1255) og Þorvarður Þórarinsson (d. 1296). Eftir Flugumýrarbrennu 1253 setti Gissur Þorvaldsson Odd, sem þá var aðeins rúmlega tvítugur að aldri, yfir Skagafjörð en 12. janúar 1255 var hann drepinn í Geldingaholti af þeim svilum Eyjólfi Ofsa og Hrafni Oddssyni. Þann 12. júlí sama ár hefndi Þorvarður bróður síns og felldi Eyjólf á Þveráraurum í Eyjafirði (Þverárfundur) en Hrafn náði að flýja af vettvangi. Árið 1270 varð Hrafn hirðmaður konungs á Íslandi og einn valdamesti maður landsins.

Valþjófsstaðahurðin

Á þessum tíma var fagurlega útskorin hurð í kirkjunni á Valþjófsstað sem nú er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands. Hurðin, sem gengur undir nafninu Valþjófsstaðarhurðin, er af mörgum talin merkasti forngripur íslensku þjóðarinnar ef fornritin eru frá talin. Telja sumir að höfundurinn að verkinu hafi verið eiginkona Odds Þórarinssonar, Randalín Filippusdóttir, en nýleg aldursgreining á hurðinni bendir til þess að hurðin sé frá því um 1200 sem útilokar Randalín sem hönnuð hurðarinnar. Þeirri kenningu hefur vaxið fiskur um hrygg að hurðin hafi upphaflega verið á klaustri Jóns Loftssonar að Keldum en Jón var langafi Randalínar.

Fæðingarstaður Gunnars Gunnarssonar

Á Valþjófsstað fæddist rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson (1889-1975). Sjö ára gamall flutti Gunnar með foreldrum sínum að Ljótsstöðum í Vopnafirði en snéri aftur til æskuslóða sinna þegar hann flutti heim frá Danmörku eftir farsælan rithöfundarferil erlendis. Byggði Gunnar sér feiknastórt íbúðarhús á Skriðuklaustri árið 1939 (sjá færsluna Skriðuklaustur).

Kirkjan

Núverandi kirkja var vígð árið 1966. Fyrir innri dyrum kirkjunnar er eftirlíking af hinni fornu hurð.

Skildu eftir svar