Hjarðarholt í Dölum
Hjarðarholt er bær í Laxárdal í Dalasýslu, þekktur sögustaður úr Laxdælu. Áður en Ólafur pái keypti Hjarðarholt bjó þar maður sem kallaður var Víga-Hrappur og var þá bærinn kallaður Hrappsstaðir. Hér fæddist Kjartan Ólafsson og hér ólust þeir frændur upp saman, Kjartan og Bolli Þorleiksson. Þorleikur var hálfbróðir Ólafs pá og Hallgerður langbrók var hálfsystir hans. Ólafur var því mágur Gunnars á Hlíðarenda. Um tíma bjó Sighvatur Sturluson, bróðir Snorra, hér í Hjarðarholti.
Gleraugna-Pétur (16. öld)
Á 16. öld þjónaði hér Pétur Einarsson (d. 1582), oft kallaður Gleraugna-Pétur, en hann er talinn vera fyrsti Íslendingurinn sem notaði gleraugu að staðaldri. Pétur kom talsvert við sögu í tengslum við siðaskiptin um miðja 16. öld og var hann um tíma umboðsmaður konungs hér á landi. Pétur var giftur systur Daða Guðmundssonar (1495-1563) í Snóksdal sem handtók Jón Arason biskup og syni að Sauðafelli 1550. Þeir feðgar voru hálshöggnir í Skálholti þá um haustið.
Réttað í morðmáli (18. öld)
Þann 13. ágúst 1756 hélt hinn þekkti sýslumaður Magnús Ketilsson (1732-1803) auka hérðaðsþingsrétt í Hjarðarholti vegna dauða Kristínar Sigurðardóttur, fyrrverandi vinnukonu á Sámsstöðum í Laxárdal, en lík hennar hafði fundist í Sámsstaðaá þá um sumarið með þó nokkrum áverkum. Guðrún Jónsdóttir frá Þorbergsstöðum upplýsti í vitnaleiðslum að á meðan Kristín dvaldi á Þorbergsstöðum hafi hún trúað sér fyrir því að hún væri ólétt og faðirinn væri Steingrímur Sigmundsson bóndi á Sámsstöðum. Þótt margir stigu fram til að vitna um illa meðferð Steingríms á hinni látnu þá var hann látinn laus gegn því að sverja eið að sakleysi sínu. Um þetta má lesa í dómabók Dalasýslu sem fjallað er um á vef Þjóðskjalasafns undir flokknun Heimild mánaðarins.
Fornleifafundur Daniels Bruun (19. öld)
1899 fann danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun (1856-1931) stuðlabergslegstein sem notaður var sem þröskuldur í dyrum þáverandi kirkju. Steinninn er talinn vera frá fyrri hluta 14. aldar og er elstur íslenskra rúnalegsteina sem varðveist hafa. Á honum er áletrunin: her : ligr : hallr : arason. Steinninn er varðveittur á Þjóðminjasafni.
Lýðháskóli Ólafs Ólafssonar (20. öld)
Árið 1910 tók stofnaði Ólafur Ólafsson (1860-1935), prófastur í Hjarðarholti, unglingaskóla í anda lýðháskólastefnunnar, Hjarðarholtsskólann, en slíkur skóli hafði verið starfræktur í Búðardal um nokkurt skeið. Rak Ólafur skólann að nokkru leyti á eigin kostnað í átta ár við góðan orðstír. Var skólinn jafnan fullskipaður og hlutu margir þjóðþekktir einstaklingar sína fyrstu formlegu menntun í skóla Ólafs. Einn af nemendum skólans 1914-1916 var rithöfundurinn, skáldið og alþingismaðurinn Jóhannes úr Kötlum (1899-1972) en hann ólst upp í Ljárskógarseli skammt frá Hjarðarholti.
Kirkjan í Hjarðarholti
Kirkjan í Hjarðarholti var byggð að undirlagi Ólafs Ólafssonar prests í Hjarðarholti og vígð árið 1904. Húsameistari var Rögnvaldur Ólafsson (1874-1917), fyrsti Íslendingurinn sem lauk námi í byggingarlist. Aðrar kirkjur sem Rögnvaldur teiknaði eru Þingeyrarkirkja, Bíldudalskirkja og Húsavíkurkirkja. Kirkjan í Hjarðarholti er friðuð.