Reykholt í Borgarfirði

Reykholt er fornt höfuðból, kirkjustaður og skólasetur í Borgarfirði. Þekktastur er staðurinn fyrir að hér sat einn af mestu höfðingjum Sturlungaldar, sagnaritarinn og skáldið Snorri Sturluson (1179-1241). Snorri ritaði Heimskringu, Snorra-Eddu og að öllum líkindum einnig Egils sögu. Þau miklu valdaátök sem áttu sér stað á 13. öld leiddu til þess að Snorri var hrakinn frá Reykholti árið 1236 af bróðursyni sínum Sturlu Sighvatssyni og drepinn hér í Reykholti af mönnum Gissurar Þorvaldssonar þann 23. september 1241.

Kirkjusaga og Reykholtsmáldagi

Kirkja reis snemma í Reykholti og er Reykholtsmáldagi frá árinu 1185 talið elsta skjal sem varðveitt er í frumriti á norrænu tungumáli.  Reykholtskirkja var byggð 1886-87. Hún var friðuð árið 1990 og er í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Nýrri kirkjan var teiknuð af Garðari Halldórssyni arkitekt og vígð árið 1996.

Brúðkaup aldarinnar (1767)

Ein herlegasta brúðkaupsveisla síðari alda var haldin í Reykholti haustið 1767 þegar Eggert Ólafsson, náttúrufræðingur og skáld, giftist frænku sinni Ingibjörgu Guðmundsdóttur frá Ingjaldshóli. Veislan stóð frá laugardegi fram á miðvikudag og var helstu fyrirmönnum landsins boðið til veislunnar. Gistu gestirnir í tjöldum sem sett höfðu verið upp af þessu tilefni eða á bæjunum í kring. Áður höfðu Eggert og Ingibjörg boðið um 50 gestum til móttöku í Hjarðarholti í Dölum þar sem brúðhjónin handsöluðu kaupmála sinn. Eggert og Ingibjörg drukknuðu á Breiðafirði vorið eftir á leið til nýrra heimkynna eftir vertrardvöl hjá Birni í Sauðlauksdal, mági Eggerts (sjá færsluna Skor). Nánari lýsingu á veislunni má lesa hér.

Héraðsskólinn (1931-1997)

Í Reykholti var starfræktur héraðsskóli frá árinu 1931 til ársins 1997. Skólahúsið, einkar glæsileg og formfögur bygging, var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins. Fyrir framan skólann er stytta af Snorra Sturlusyni sem Norðmenn gáfu Íslendingum árið 1947.

Fornleifarannsóknir (20. öld)

Frá árinu 1988 hafa farið fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir í Reykholti sem m.a. hafa leitt í ljós fornt bæjarstæði, gufu- og heitavatnsstokka, smiðju og jarðgöng  sem liggja niður að Snorralaug og kallast Snorragöng. Snorralaug, sem er eitt elsta mannvirki sem varðveist hefur hér á landi og meðal fyrstu fornminja sem friðaðar voru á Íslandi, er talin hafa verið baðlaug Snorra Sturlusonar.

Snorrastofa (1995)

Í Reykholti er rekið menningar- og miðaldasetur, Snorrastofa. Snorrastofa sinnir rannsóknum, starfrækir bókhlöðu, annast tónleikahald í Reykholtskirkju og veitir gestum ýmis konar þjónustu.

Saga Snorra (2009)

Árið 2009 kom út bókin Snorri: ævisaga Snorra Sturlusonar 1179-1241 eftir Óskar Guðmundsson. Bókin fjallar lífshlaup Snorra Sturlusonar; ástir, átök og dauða.

Skildu eftir svar