Dalir í Vestmannaeyjum

Una skáldkona

Una Jónsdóttir, skáldkona, var fædd í Dölum í Vestmannaeyjum 31. janúar 1878, en bjó lengstum á Sólbrekku, Faxastíg 21. Una var alþýðukona, lausaleiksbarn ekkju, sem flutt var nauðug með dætur sínar úr Eyjum í Meðalland. Una flæktist siðan víða, eignaðist börn, sem hún varð að skilja eftir undir Eyjafjöllum, þegar hún flutti aftur út í Eyjar fulltíða kona. Henni tókst að eignast hús við Faxastíg, seldi lengi aðkomnum vertíðarmönnum fæði, en einn þeirra ílentist hjá henni og saman tókst þeim að draga fram lífið. Um tíma voru þau með á Sólbrekku 5 kýr í fjósi og 21 kind á fóðrum, en slíkur búskapur hæfði eflaust illa húsinu í dag, sem enn stendur að nafninu til, mikið breytt, við malbikaða, nútímalega götu í miðjum bænum! Una varð svo kunn í Eyjum fyrir skáldskap sinn, að hún var jafnan nefnd „Una skáldkona„. Vísur hennar og ljóð birtust í blöðum Eyjamanna, og hún steig mjög óvenjuleg skref, alþýðukonan, þegar hún gaf ljóð sín út í tveim bókum, Vestmannaeyjaljóð 1929 og Blandaða ávexti 1956. Una var einnig þekkt í Eyjum fyrir grasalækningar, en hún lést 29. febrúar 1960.

Mótlæti Ólafs bónda

Ólafur Jónsson var bóndi í Dölum frá árinu 1825, en hann var fæddur árið 1800 og lést 1863. Hann komst á spjöld sögunnar fyrir að hafa verið kærður til sýslumanns af sóknarpresti í Eyjum fyrir ósæmilegt framferði í Landakirkju á gamlárskvöld og aftur á nýársdag. Hafði Ólafur verið með drykkjulæti í kirkjunni ásamt tveimur öðrum, og voru þeir allir sektaðir. Þá fylgdi sektinni bann við því, að þremenningarnir fengju að sitja í kór kirkjunnar eins og allir þeir er staðnir voru að drykkjuskap. Óregla, agaleysi og óknyttir munu oft hafa verið umkvörtunarefni í Vestmannaeyjum á 17, 18. og fram eftir 19. öld. Eftir stofnun Herfylkingar Kapteins Kohl um miðja þá öld hafi ástandið þó lagast, enda fylkingin í senn bæði bindindishreyfing og löggæslusveit.

Dalabóndanum varð fleira mótdrægt í lífinu en að þurfa að gera sér að góðu “óæðri” sæti í Landakirkju sækti hann þangað til messu. Hann þurfti að þola það sára mótlæti að eignaðist sex börn á árabilinu 1822- 1832, sem dóu öll kornung nema eitt: 2 úr barnaveiki og 3 úr stífkrampa. Í Eyjum geisaði á dögum Ólafs nánast stífkrampafaraldur, sem lagði stærstan hluta ungbarna að velli. Ekki tókst að stemma stigu við faraldrinum fyrr en um miðja öldina með tilkomu fæðingarstofu í Landlyst, vel menntaðs læknis og hjúkrunarkonu.

Upphafsmaður kvikmyndasýninga

Sveinbjörn Jónsson frá Dölum var fæddur 16. mars 1889 og lést 6. apríl 1930, en foreldrar hans voru ábúendur í Dölum. Sveinbjörn varð fyrstur manna í Eyjum ásamt Magnúsi Eiríkssyni frá Vesturhúsum til þess að eignast kvikmyndavél og filmur úti í Ameríku og sýna þær almenningi í Gúttó heima í Eyjum árið 1911 eða 1912. Svo mjög hafa þessar sýningar lýst upp hverdagslífið á staðnum og fest í minni ungs sýningargests, að hann gat rifjað upp inntak og söguþráð þeirra síðar á öldinni! 

Sveinbjörn frá Dölum varð seinna rafstöðvarstjóri í Eyjum og eflaust kunnur sem slíkur á meðal bæjarbúa. Sem upphafsmaður kvikmyndasýninga í bænum fylgdu í kjölfarið áratugir slíkra sýninga, sem bæjarbúar sóttu sér til afþreyingar og ánægju. Með tilkomu sjónvarps og aukins aðgangs að myndefni á spólum, diskum og netveitum, hafa kvikmyndasýningar í Eyjum sem annarsstaðar á landinu færst í auknum mæli frá sérstökum sýningahúsum inn á heimilin. Fingraför Sveinbjörns Jónssonar á fyrstu filmum kvikmyndasögunnar í Vestmannaeyjum eru löngu horfin sem og afskipti hans af rafmagnsmálum eyjaskeggja, en hann og kona hans reistu afar reisulegt hús við Fífilgötu 5, sem enn stendur.

Kúabú samyrkjunnar

Vegna legu Eyjanna þurftu Eyjamenn frá fornu fari að reiða sig á eigin mjólkurframleiðslu, en Vestmannaeyjabær lét reisa Dalabúið á árum seinni heimsstyrjaldar til þess að koma til móts við þverrandi mjólkurframleiðslu á Heimaey. Mikil uppsveifla varð á þessum tíma í sölu fiskafurða til Englands, sem var miklum mun arðvænlegri en nautgriparækt. Rekstur Dalabúsins með 50-60 kýr fullnægði mjólkurþörf helstu stofnana bæjarins, s.s. sjúkrahússins, elliheimilisins og barnaheimilis, og rak bærinn búið fram til ársins 1962. Þá var það selt og rekið áfram af einstaklingum í nokkur ár áður en það var lagt niður og yngri kýr seldar til sveita á Suðurlandi en eldri kúm lógað. Kúabúskapur var í framhaldinu eingöngu á bæjum austur á Heimaey, en lagðist endanlega af, þegar eldgos hófst á Heimaey 1973.

Dalir voru tvær bújarðir samkvæmt elstu heimildum frá 16. öld. Kúabúið sem reist var á árum seinni heimsstyrjaldar setur mestan svip á staðinn í dag, en einnig er þar hrörlegt íbúðarhús. Ábúendur eru ekki lengur á Dalajörðunum og aðeins einhver sauðfjárbúskapur stundaður af frístundabændum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar