Hvíld í Vestmannaeyjum
Varða sem vegvísir og hvíldarstaður
Á horni Illugagötu og Höfðavegar, nokkrum metrum frá Illugaskipi og Illugahelli, er varða sem hlaðin var 1948 af Magnúsi Jónssyni. Varðan er í jaðri lóðar hússins Saltabergs, sem Hlöðver Johnsen byggði árið 1950, og er til marks um gamlan áningarstað milli þorpsins á Heimaey niðri við höfnina og samfélagsins suður á eyju, þar sem prestsetrið um aldir, Ofanleiti, var miðpunkturinn. Á fyrrnefndum gatnamótum var gömul varða til leiðbeiningar fyrir göngumædda ferðalanga en hún varð að víkja, þegar götur og vegir lögðu af hólmi troðninga og göngustíga fyrri alda. Staðurinn ber nafnið Hvíld og eins og nafnið ber með sér var hægt að hvílast þarna og safna kröftum einkum í myrkri og vondu veðri á leið norður eða suður Heimaey. Ofanbyggjarar voru þeir kallaðir, sem bjuggu suður á eyju, og þurftu um aldir að sækja vistir og varning ýmis konar til norðurhlutans, verslana við höfnina. Þá urðu þeir og að koma vörum sínum sömu leið s.s. fiski, sem veiddur var og verkaður þar suður frá. Fiskflutningar hafa farið þarna framhjá um aldir, þegar fiskur var vindþurrkaður og geymdur í steinbyrgjum víða um eyjuna s.s. í Ofanleitishrauni. Síðar var fiskurinn saltaður og fluttur til sólþurrkunar á hraunhellum langt upp á eyju og jafnvel uppfyrir Hvíld og kallaði á mikla flutninga með hand- og hestvögnum og loks bílum. Bændur fyrir ofan hraun, ofanbyggjarar, tóku eins og aðrir bændur á Heimaey þátt í þeirri byltingu, sem fylgdi vélbátavæðingunni í upphafi 20. aldar og eignuðust margir hlut í bát. Þeir sjálfir og búalið þeirra þurftu að fara um þennan veg framhjá Hvíld til þess að sinna útgerð sinni og verka þann fisk, sem barst á land. Í þeim ferðum sem öðrum var unnt að kasta mæðinni við Hvíld fyrir tví- sem ferfætlinga. Þá hafa prestarnir á Ofanleiti átt leið hjá Hvíld til þess að sinna prestverkum s.s. messuhaldi í Landakirkju og öðrum embættisverkum niðri í þorpinu.
Nútíminn og fortíðin
Í dag hvílist enginn lengur við vörðuna í Hvíld eða hefur hana til leiðsagnar á ferð um Heimaey. Engin þörf er til þess að nema staðar á þessari leið, hvorki fyrir fótgangandi né þeim mun síður fyrir þá sem ferðast um á bílum. Víðáttan og vegalengdir hafa dregist saman í þéttbýlinu, hús og götur hafa leyst móa og hraun af hólmi, myrkur fyrri alda hefur vikið fyrir rafljósinu. Upplýstar götur tengja nú saman suður- ogg norðurhluta Heimaeyjar. Nútíminn hefur leyst gamla bænda- og fiskimannasamfélagið af hólmi með þeim sjálfsþurftarbúskap og lifnaðarháttum sem því fylgdi. Varðan í Hvíld minnir á allt þetta, sem horfið er.