Klaufin í Vestmannaeyjum

„Það eru ekki allt selir, sem sýnast.“

Klaufin er grýtt sandfjara norðan Höfðavíkur. Þar var fyrrum útræði bænda suður á Heimaey, svokallaðra Ofanbyggja. Bændur gengu jafnan á reka á þessum slóðum og svo var um þann, sem gekk á fjörur árla dags, en skilaði sér ekki aftur heim. Eftir nokkra leit fannst hann fyrir ofan Klaufarskálina mátt- og mállaus og meðvitundarlítill. Lifði hann stutt eftir þetta og fékk ekki málið aftur. Í andarslitrunum þóttust menn þó heyra frá munni hans, hvers vegna svona væri fyrir honum komið: „Það eru ekki allt selir, sem sýnast.“

Útgerð

Ofanbyggjarabændur reru frá Klaufinni eða Víkinni, Höfðavík, um aldir. Hið forna prestssetur, Ofanleiti, var miðpunktur þessarar byggðar með prestinn í fararbroddi a.m.k. sem andlegan leiðtoga. Frá þessum bæjum suður á eyju var ekki um langan veg að fara og Klaufin var frá náttúrunnar hendi vel úr garði gerð til þess að hægt væri að ýta þar fleyjum úr vör og geyma í hrófum. Bændurnir sameinuðust um nokkra báta og útgerðin var á svipuðum nótum og „stórútgerðin“ við hina eiginlegu höfn á eyjunni, Lækinn. Formaðurinn vakti aðra skipverja snemma að morgni, gengið var suður í Klauf, bátnum rennt eftir hlunnum í sjó fram, farið með sjóferðabæn og svo róið á miðin, oft að nærliggjandi úteyjum, s.s. Hellisey og Súlnaskeri. Seinni partinn var svo haldið heim, aflinn borinn úr bátnum í flæðarmálinu upp á klappir og honum skipt eftir að búið var að ganga frá skipi í naust. Þá var fiskurinn seilaður og fluttur með hestum heim á bæi þar sem hann var verkaður, saltaður í kassa, þveginn og þurrkaður sem væntanlegt innlegg í verslun og/ eða sem skiptivara við bændur á fastalandinu. Smáfiskur var saltaður í tunnur sem soðfiskur fyrir heimilið. Lítil sem engin merki eru um þennan útveg í Klaufinni í dag en hann lagðist niður um miðja tuttugustu öldina. Þó má finna naust eða krær sunnan megin við Víkina, Erlendarkrær, sem eflaust tengjast sjósókn fyrri tíma.

Costa Klauf

Þegar Íslendingar flykktust á sólarstrendur til Spánar á 7. áratug seinustu aldar, var vinsælt hjá ungmennum í Eyjum að halda „út í Klauf“ á sólríkum sumardögum og flatmaga þar að hætti Spánarfara. Var jafnvel talað um Klaufina sem Costa Klauf og þegar best lét mætti jafnvel hljómsveit „á ströndina“ til þess að skemmta sólarsleikjum!

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar