Drífandi í Vestmannaeyjum

Kaupfélag

Kaupfélagið Drífandi lét reisa húsið við Bárustíg 2 á Litlabæjarlóðinni og flutti starfsemi sína þangað árið 1921. Húsið fékk nafn félagsins og ber það enn tæpri öld síðar. Kaupfélagið var sölu- og verslunarfélag alþýðunnar í Eyjum, þar sem markmiðið var að útvega félagsmönnum vörur, oft útgerðarvörur, á besta verði, sem völ var á hverju sinni, og selja afurðir þeirra á sama hátt. Fyrsti kaupfélagsstjóri kaupfélagsins var Ísleifur Högnason. og stóð hann í stafni félagsins til ársins 1930, en ári seinna var félagið leyst upp og lagt niður. Höfðu þá staðið yfir pólitískar væringar um skeið og miklir fjárhagslegir erfiðleikar. Stór og mikil viðbygging prýðir Drífanda-húsið í dag, norðan megin, en margs kyns verslunarrekstur hefur verið í húsinu eftir daga kaupfélagsins Drífanda og er enn.

Listir

Á 3. áratug seinustu aldar bjuggu í Drífanda Baldvin Björnsson, gullsmiður og listmálari, ásamt konu sinni Mörthu Clöru Björnsson. Baldvin rak verkstæði í rjáfri hússins, en frúin matsölu við góðan orðstír. Ási í Bæ hefur fjallað um Baldvin í bók sinni Skáldað í skörðin, og vinskap Baldvins við Sigurbjörn Sveinsson barnabókahöfund. Sonur Baldvins og Mörthu var Björn Th. Björnsson listfræðingur og rithöfundur.  Björn var fæddur í Reykjavík 3. september 1922, en flutti barnungur til Vestmannaeyja og átti þar sína æsku fram að fermingaraldri. Björn nam listasögu í Bretlandi og Danmörku og kenndi sín fræði í fjölmörgum skólum í höfuðborginni, gegndi ýmsum trúnaðar- og stjórnunarstörfum og var mikilvirkur rithöfundur. Eftir hann eru bækur um listir og listamenn, þjóðlegan fróðleik, skáldsögur, leikrit, þýðingar og endurminningar. Í þeim flokki er t.a.m. bók Björns, Sandgreifarnir, um æskuárin í Eyjum. Björn lést í Reykjavík 25. ágúst 2007.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar