Fiskikrærnar í Vestmannaeyjum

Aðaluppsátur árabátanna í Eyjum voru Hrófin upp af Læknum, en önnur minni voru bæði að austan og vestan við hann. Snemma hafa orðið til lítil hús, krær, sunnan og ofan við Strandveg, þar sem hægt var að verka fiskinn og geyma. Á seinni hluta  18. aldar fóru eyjamenn í auknum mæli að verka fisk í salt í stað þess að þurrka hann í skreið og þar með jókst fiskvinnslan við sjávarsíðuna og krónum fjölgaði. Fram undir lok 19. aldar voru krærnar gerðar úr torfi og grjóti, en timburkrær bættust svo við frá árinu 1907 og varð til þyrping slíkra húsa, þar sem þær stóðu norðan við Strandveginn, vestur að húsinu Nýborg, sem enn stendur. Eftir að kvenfólkið hafði afhausað og slægt fiskinn úti var hann flattur, saltaður og staflað upp af karlmönnum inni í krónum.  Að vori var fiskurinn borinn úr krónum, þveginn í sjávarlónum og síðar úr körum og loks borinn á stakkstæði til þurrkunar. Með auknum aflabrögðum í kjölfar línuveiða og vélbátaútgerðar í upphafi 20. aldar reyndust litlu torf- og grjótkrærnar ófullnægjandi og byggðar voru stærri úr tré og járni og jafnvel steypu.  Enn vestar reis svo króaþyrping á stöplum út í sjó, Pallarnir. Með bættri vegagerð leystu handvagnar svo fiskburð kvenna af hólmi og eftir komu bílsins til Eyja 1918 varð hlutverk hans í fiskflutningum smám saman stærra.

Allt þetta umhverfi við höfnina er gjörbreytt eftir miklar hafnarframkvæmdir og uppfyllingu langt í sjó fram, þar sem klappir, krær og sjávarlón eru horfin. Þá teygðu ystu hrauntungur í Heimaeyjargosinu 1973 sig svo langt inn á þetta forna athafnasvæði, að nær öll gömul kennileiti og viðmið eru horfin. Þó stendur Bæjarbryggjan enn svo unnt er að nokkru að gera sér í hugarlund, hvar  þyrpingar gömlu krónna við hin fornu uppsátur voru.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar