Laufás í Vestmannaeyjum
Sjómaðurinn
Þorsteinn Jónsson (1880-1965) keypti Laufás, Austurvegi 5, árið 1905, en lét rífa það árið 1912 og byggði stórt og reisulegt hús á lóðinni. Þorsteinn var fæddur 14. október árið 1880 og hóf að stunda sjóinn um fermingu, en sjómennska varð hans ævistarf. Frá 1900 varð hann formaður á tíæringnum Ísak og upplifði seinustu ár árabátaútgerðar, sem staðið hafði yfir í aldir. Á vetrarvertíðinni 1906 sótti Þorsteinn sjóinn í fyrsta sinn á vélbáti og varð þar með einn af frumkvöðlum vélbátaútgerðar frá Eyjum. Tveir vélbátar höfðu verið keyptir til Eyja árin 1904 og 1905, en fyrri báturinn var aldrei notaður til fiskveiða og sá seinni aflaði lítið. Vélavandkvæði og þekkingarleysi á vélum takmörkuðu mjög umsvifin og árangurinn. Þorsteinn frá Laufási var hins vegar búinn að kynna sér vélarganginn, þegar hann, 3. febrúar 1906, hélt í fyrsta sinn út á eyjamið á vélbáti sínum Unni. Eftir vertíðina hafði hann blásið allar hrakspár á haf út. Afli stórjókst, færri menn þurfti um borð, róðrum fjölgaði og unnt var að sækja á fjarlægari mið en áður. Handafl árabátanna réði augljóslega ekki við vélaraflið, og á næstu vertíð voru nær eingöngu vélbátar, sem sóttu sjóinn frá Vestmannaeyjum. Framundan urðu alger umskipti á sjósókn, sem áttu stóran þátt í því á næstu áratugum að breyta frumstæðu samfélagi í nútímalegt bæjarfélag. Laufás, heimili Þorsteins, fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973, en húsið stóð örlítið austar en núverandi Austurvegur endar, rétt innan við hraunjaðarinn.
Rithöfundurinn
Þorsteinn Jónsson frá Laufási sótti ekki aðeins fisk úr sjó. Á efri árum settist hann við skriftir og sendi frá sér tvær bækur, Formannsævi í Eyjum árið 1950, sem segir frá hálfrar aldar formennsku Þorsteins á vélbátum og Aldahvörf í Eyjum 1958, þar sem rakin er saga útgerðar í Vestmannaeyjum um aldir. Báðar bækurnar eru stórmerkar heimildir um atvinnuhætti og daglegt líf í Eyjum. Þorsteinn frá Laufási lést 25. mars 1965.