Flugur í Vestmannaeyjum
Horfin og breytt strandlengja
Eftir að Heimaeyjargosinu lauk árið 1973 var gamla strandlengjan, austurhluti Heimaeyjar, horfin allt frá hafnarmynninu austur og suður fyrir rætur Helgafells. Ströndin einkenndist af hömrum, víkum, töngum, tóm, nefjum, flúðum, klettum og urðum með alls kyns nöfnum og örnefnum. Í austan stórviðrum skall úthafsaldan með miklum þunga á þessa strönd og var hættuleg sjófarendum ekki síst í myrkri, blindbyl og sjóroki. Syðsti hluti gamla hamrabeltisins stendur í dag á þurru landi með hraunið úr Heimaeyjargosinu undir sem nær langleiðina að Skarfatanga. Heitir þetta belti Flugur en þar nær sjórinn ekki að berja lengur á gömlu hömrunum nema þá allra syðst næst tanganum.
Sjóslys
Mörg sjóslys hafa orðið við þessa hamra, horfna sem þá er enn standa uppi í landi. Seinni hluta vertíðar, 9. apríl árið 1916, rak vélbátinn Haffara VE 116 með bilaða vél í blindbyl og ofsaveðri upp í stórgrýtisurð suður með Flugum og brotnaði þar í spón. Tvo menn af fimm manna áhöfn skolaði upp í urðina og tókst þeim á undraverðan hátt að ná landi og fóta sig í öldurótinu. Gátu þeir klöngrast í stórgrýtinu meðfram klettabeltinu alllangan spöl í niðamyrkri áður en þeir klifruðu upp á brún á móts við Flúð og héldu þaðan til bæja í snjó og ófærð. Einn þeirra þriggja sem fórust með Haffara var formaðurinn, Jón Stefánsson, sem byggði hús sitt Úthlíð við Vestmannabraut 58a. Tómas Þórðarson var annar þeirra er bjargaðist. Sonur hans er hinn kunni fræðimaður og safnvörður Byggðarsafnsins á Skógum undir Eyjafjöllum, Þórður Tómasson. Í apríl 1924 strandaði togarinn Kelvin á sama stað og Haffari.
*
Gunnar Sigurfinnsson var vélstjóri á Haffara og vitjaði húsfreyju sinnar í draumi nóttina sem báturinn fórst. Lýsti hann aðdragandanum að slysinu, hvernig Haffara rak stjórnlaust upp í urðina og hann drukknað í öldurótinu. Hefði lík hans skolast upp með braki úr bátnum, skorðast milli tveggja steina og hann skaddast á vinstra gagnauga. Varð draumur húsfreyju ekki lengri en að morgni var farið suður með Flugum til þess að athuga hvort lík bátsverja hefði rekið á land. Fannst þá lík Gunnars á þeim stað og með áverkum á vinstra gagnauga er hann hafði lýst í draumnum.
Slys á landi
Hamrarnir suður með Flugum hafa ekki aðeins reynst sjófarendum hættulegir og mikil slysagildra. Vitað er með vissu um fjóra menn eftir 1800 sem farist hafa þarna, væntanlega við eggja- og fuglatekju en slík iðja var hluti af bjargræði eyjamanna um aldir. Allir þessir menn voru mjög ungir að árum, þegar þeir hröpuðu til bana í Flugum:
- Jón Guðmundsson, f. 1. apríl 1859, hrapaði til bana 3. júní 1873, 14 ára gamall. Sonur Kristínar Björnsdóttur og Guðmundar Eiríkssonar, Smiðjunni.
- Einar Jónsson, f. 11. febrúar 1856, hrapaði til bana 31. júlí 1878, 22 ára gamall. Sonur Margrétar Jónsdóttur og Jóns Sverrissonar, Túni.
- Sigurður Magnússon, f. 3. september 1887, hrapaði til bana 24. maí 1902, 15 ára gamall. Sonur Guðlaugar Guðmundsdóttur og Magnúsar Eyjólfssonar, Kirkjubæ.
- Aubert Herman Hermansen, f. 26. maí 1922, hrapaði 30. maí 1939, 17 ára gamall. Uppeldissonur Jóhönnu Jósefínu Erlendsdóttur, húsfreyju í Ásbyrgi og sonur seinni manns hennar, Sterker Cedrup Hermansen. Aubert Herman var hálfbróðir Guðna Hermansen, listmálara í Eyjum.
Nýja strandlengjan
Þótt nýja strandlengjan, sem myndaðist í Heimaeyjargosinu, sé ekki nema u.þ.b. hálfrar aldar gömul hefur hún reynst sjófarendum örlagarík eins og sú gamla. Tæplega 70 árum eftir Haffaraslysið, árið 1982, strandaði belgíski togarinn Pelagus austur af hinum fornum Flúðum og fórust þá 4 menn. Tveimur árum síðar endurtók Friðþór Guðlaugsson að hluta til afrek skipverjanna sem björgðuðust á Haffara þegar honum tókst að ná landi á nýja hrauninu austur af Flúðum eftir margra klukkustunda sund og komast til bæja.