Helgafell í Vestmannaeyjum

Simmi koló, Heimaklettur
Vakt á felli

Helgafellið er 226 m á hæð og varð til í gosi, sem mun hafa tengt saman norðurklettana, Dalfjall og suðurhlutann þannig að Heimaey varð til eins og hún leit út fram að Heimaeyjargosinu 1973. Tiltölulega auðvelt er að ganga á fellið, þótt bratt sé, líta augum grasi gróinn gíginn, og njóta útsýnis til allra átta. Eftir Tyrkjaránið 1627 var hver ábúandi í Eyjum skyldugur til þess að taka þátt í vöktum á fellinu, tveir menn í senn, og átti annar að bera fréttir niður á Skans, ef sást til grunsamlegra skipaferða, en hinn að hringja kirkjuklukkunum. Héldust vaktirnar fram yfir 1700.

Flugslys

Um miðjan daginn, 10. apríl 1944, á annan í páskum, urðu Eyjamenn varir við flugvélargný yfir Heimaey. Flugmaður lítillar, amerískrar flugvélar átti greinilega í erfiðleikum með að stjórna vél sinni, sem endaði með því að hann brotlenti henni ofarlega í norðausturhlíð Helgafells. Náði hann áður að koma sér út í fallhlíf, sem sveif í vestur og lenti í sjónum við Ofanleitishamra. Komst flugmaðurinn sjálfur í land, en læknirinn í bænum, Einar Guttormsson, kom fljótlega á staðinn og mun, að sögn, hafa boðið honum koníak til hressingar, sem sá ameríski afþakkaði! Lengi mátti sjá flugvélarflakið í kvos, sem myndast hafði, þegar vélin lenti á fellinu, silfurlitaða málmhluti, væntanlega úr búk, vængjum og vél. Á 6. áratug aldarinnar var staðurinn t.a.m. enn merkjanlegur, en mikil grasgróska og túngróður vann markvisst á ummerkjum og græddi upp þetta sár í Helgafelli, sem hvarf í kjölfarið.

“Hefnd Helgafells”

Á 7. áratug seinustu aldar komst sú saga í hámæli, að Helgafell ætti eftir að hefna harma sinna vegna mikils malarnáms, sem átti sér stað í suðurhlíð þess. Var á meðal bæjarbúa talað um hefnd Helgafells, sem listmálarinn Guðni Hermansen túlkaði í samnefndu málverki, þar sem sjá mátti fellið spúa eldi og eimyrju. Ári síðar hófst eldgos við rætur Helgafells!

Hreinsun

Í Heimaeyjargosinu lagðist þykkt öskulag yfir hlíðar fellsins sem og yfir aðra staði á eyjunni. Eftir að gosi lauk var unnið sleitulaust við hreinsun bæjarins og askan fjarlægð eins og unnt var. Þegar unnið var í hlíðum Helgafells komu verkamenn niður á skothylki í beltum, sem vöktu að vonum mikla athygli. Þóttust menn þar hafa fundið leifar frá flugslysinu á stríðsárunum. Rifjaðist þá upp, að vélbyssa flugvélarinnar auk skammbyssu, sem flugmaðurinn hafði hent frá sér úr fallhlífinni, höfðu lent hjá áhugasömum piltum úr bænum og hefði vélbyssan verið geymd í húsi, sem farið hafði undir hraun í Heimaeyjargosinu. Skammbyssan væri hugsanlega enn í fórum þess, sem fann hana á sínum tíma?

Smelltu hér til þess að skoða götumynd á Já.is

Skildu eftir svar