Valhöll í Vestmannaeyjum
Eldeyjarkappi
Ágúst Gíslason byggði Valhöll árið 1913, við hlið Landlystar, fyrsta fæðingarheimilisins á Íslandi, og var húsið eitt fyrsta steinsteypta húsið í Eyjum. Ágúst var þá þekktur í sinni heimabyggð fyrir að hafa klifið Eldey árið 1894 ásamt Stefáni, bróður sínum, og Hjalta Jónssyni. Klifur þeirra félaga upp þennan 77 m sæbarða klettadrang utan Reykjaness þótti einstakt afrek, enda ekki vitað til þess, að hann hafi áður verið klifinn. Árið 1939 var afrek þremenningana rifjað upp í ævisögu Hjalta, sem Guðmundur Hagalín skráði. Eru lýsingar stórbrotnar og ógleymanlegar, er bræðurnir og Hjalti ráku fleyga í bergið og vógu sig upp snarbrattan, þverhníptan hamarinn. Ágúst, Stefán og Hjalti Jónsson hlutu frægð og sóma af Eldeyjarferðinni, einkum þó Hjalti, sem lét skrásetja hana í ævisögu sinni, Eldeyjar- Hjalti. Þeir bræður voru hins vegar ávallt nefndir eftir húseignum sínum svo afrek þeirra féll e.t.v. í skugga Hjalta. Ágúst Gíslason var fæddur 15. ágúst 1874 og stundaði sjómennsku og útgerð þar til hann fannst látinn í fjöru við Bæjarbryggjuna, 24. desember 1922.
Kaupfélag
Kaupfélagið Drífandi, innkaupa- og sölufélag alþýðunnar í Eyjum, átti sín upphafsskref í Valhöll, en félagið leigði jarðhæðina frá stofnun þess 1920. Ári síðar flutti félagið í nýbyggt, eigið hús nokkrum húslengdum austar við Bárustíg 2, sem hlaut sama nafn og eigandinn, Drífandi. Þar þjónaði kaupfélagið viðskipavinum sínum næsta áratuginn.
Nuddlækningastofa
Árið 1923 var opnuð nuddlækningastofa í Valhöll og var þar til húsa um nokkurra mánaða skeið. Í stofunni stundaði dönsk kona, Kathy Henrikssen, nuddlækningar, sem hún hafði numið í heimalandi sínu en hún hafði að auki lært hjúkrun. Kathy Henrikssen kom til Eyja með norska trúboðanum O.J. Olsen, sem beitti sér fyrir stofnun aðventistusöfnuða víða um land og m.a. í Eyjum. Eflaust hefur nuddlækningastofan í Valhöll þótt mikil nýlunda og væntanlega sú fyrsta sinnar gerðar í bæjarfélaginu. Mun stofan hafa verið vel sótt frá upphafi en rekstur hennar fluttist síðar á árinu 1923 í baðhús við Bárugötu 15 sem reist hafði verið að frumkvæði O.J. Olsen. Kathy Henriksen ílengdist á staðnum og varð síðar skókaupmannsfrú við Kirkjuveg. Nuddlækningar urðu viðvarandi næstu áratugina í Eyjum því systir Kathy Henriksen, Emma, tók síðar við lækningunum og rak nuddlækningastofu a.m.k. út 7. áratuginn, síðast í Arnardrangi við Stakkagerðistún.