Grænahlíð 9 í Vestmannaeyjum

Grænahlíð 9 var æsku- og ungdómsheimili Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, sem varð þjóðþekktur í afskiptum sínum að covid-19 veirunni er tröllreið heimsbyggðinni árið 2020.  Þórólfur var einn af svokölluðu þríeyki, sem stýrði viðbrögðum íslensku þjóðarinnar gegn þessum vágesti, en hin tvö voru Alma Möller landlæknir og annar Eyjamaður að upplagi, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Ríkislögreglustjóra. 

Þórólfur er fæddur árið 1953, flutti 9 ára gamall til Eyja og ól þar manninn þar til hann hélt til náms á Laugarvatn, til Danmerkur, Reykjavíkur og loks til Bandaríkjanna.  Þótt læknastarfið yrði hans ævistarf, fékkst hann við allt annað en læknaleiki á uppvaxtarárun sínum á Heimaey.  Í vaxandi bæ á 7. áratug síðustu aldar voru leikfélagar úti um allt, þar sem barnmargar fjölskyldur settust að í nýjum hverfum.  Grænahlíð var ein þeirra gatna í austurbæ kaupstaðarins, þar sem börn léku sér á götum úti og stutt var í iðagræn tún bændasamfélagsins austan götunnar.  Á unglingsárum Þórólfs var ekki langt í miðbæinn, þar sem bíó, sjoppur og rölt á rúntinum uppfylltu drauma ungu kynslóðarinnar í Eyjum.  Draumar hennar, viðhorf og venjur mótuðust mjög af áhrifum frá breskri ungmennamenningu á 7. áratugnum og Þórólfur var einn þeirra fjölmörgu sem heillaðist af henni.  Hann varð meðlimur í einni af fjölmörgum Bítlahljómsveitum á staðnum, sem spilaði á svokölluðum málfundum í Gagnfræðaskólanum, á stúkufundum og víðar. Þessi hljómsveitarár mótuðu Þórólf svo rækilega, að hann hefur aldrei sleppt taki af bassanum, gítarnum og söngnum og hefur spilað í fjölmörgum tækifærishljómsveitum síðan.  Þá treysti Þórólfur enn tengsl sín við tónlistina, þegar hann valdi sér ungur konuefni úr rótgróinni tónlistarfjölskyldu í Eyjum, dótturdóttur Oddgeirs Kristjánssonar, höfuðtónskálds Vestmannaeyinga.


Þórólfur hlaut fálkaorðuna fyrir störf sín ásamt samstarfsfóki sínu í þríeykinu árið 2020. Æskuheimili hans við Grænuhlíðina fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973, en örskammt er frá hraunjaðrinum í dag þangað sem hús fjölskyldu Þórólfs stóð.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar