Svaðkot í Vestmannaeyjum

Svaðkot var suður á eyju, fyrir ofan hraun, í byggð svokallaðra Ofanbyggjara í nágrenni prestssetursins, Ofanleitis og stóð kotið beint útsuður af því.  Hlaðinn garður var umhverfis kotið, en hann fór undir flugbrautina, þegar hún var lengd til vesturs og setur mjög mark sitt á hið forna umhverfi við Ofanleiti.  Búið var í Svaðkoti á 19. öld og fram á þá 20., þegar það var flutt og endurreist sunnar og fékk þá nafnið Suðurgarður, sem enn stendur undir því nafni.  Hjónin Bjarni Ólafsson og Ragnheiður Gísladóttir bjuggu í Svaðkoti á 9. áratug 19. aldar, ráku þar búskap til lands og sjávar eins og Ofanbyggjarar  höfðu gert um aldir. 

Sjósókn og slysfarir

Árið 1883 voru 8 manns í heimili í Svaðkoti, en árið átti eftir að verða örlagaríkt fyrir fjölskylduna og kalla yfir hana miklar sorgir.  Á stuttum tíma um vorið féllu frá tveir synir hjónanna og húsbóndinn einnig.

Á hvítasunnudag 13.maí gekk yngri sonurinn, Gísli, sem þá var 13 ára gamall, niður á Ofanleitishamar til þess að fylgjast með fuglum í hömrunum og sneri ekki til baka.  Var farið að grennslast eftir honum, þegar á daginn leið og hafði enginn orðið hans var á nærliggjandi bæjum.  Fannst lík Gísla á syllu í hamrinum seint um kvöldið eða morguninn eftir.

Húsmóðirin í Svaðkoti hafði vart fært þennan son til greftrunar, þegar hún þurfti að fylgja hinum syni sínum, Ólafi, sömu leið.  Ólafur Bjarnason hélt í róður með föður sínum frá Klaufinni, útræðishöfn Ofanbyggjara, 16. júní í blíðskaparveðri.  Um hádegisbil veittu menn frá bæjunum því athygli, að þúst virtist mara í hálfu kafi skammt vestan við Stórhöfða og vöknuðu grunsemdir um að eitthvað væri ekki í lagi.  Var báti skotið á flot og róðið út í Víkina.  Reyndist þústin vera bátur Bjarna bónda, fullur af sjó, en hann var horfinn auk þriggja bátsverja, ára og segls. Hins vegar var lík sonar hans um borð og færi, sem virtist benda til þess að báturinn hefði alltaf verið á réttum kili, þegar eitthvað hafði fært hann í kaf. 

Óleyst ráðgáta

Örlög Bjarna Ólafssonar og skipshafnar hans eru óráðin enn í dag.  Eflaust hefur fólkið á suðurbæjunum og víðar á Heimaey velt þeim fyrir sér, hvað hefði eiginlega gerst á spegilsléttum sjónum þennan júnídag, þegar engar hættur voru í sjónmáli.  Hölluðust menn helst að þeirri tilgátu, að stórhvalur hefði fært bátinn í kaf og valdið slysinu.  Í Svaðkoti var ekkjan ein eftir í kotinu auk tveggja dætra, búin að missa á rúmum mánuði alla karlmenn á heimilinu.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar