Garðurinn og Godthaab í Vestmannaeyjum


Umbylting manna og náttúru

Þegar staðið er fyrir ofan Bæjarbryggjuna og horft í suður og austur að hraunjaðrinum úr Heimaeyjargosinu 1973, er lítið að sjá annað en malbik, steinsteyptar nýbyggingar og hraungrýti. Öll söguleg ummerki eru horfin, þ.e.a.s. þau sem markað hafa langvarandi spor í sögu Vestmannaeyja og eiga sér eldri rætur en taldar eru í árum og áratugum. Mannshöndin hefur verið drjúg í þeim umbreytingum, sem þarna hafa orðið, fyrst og fremst á nýliðinni öld, 20. öldinni. Þá urðu til miklar landfyllingar á svæðinu, sker, klappir, víkur og vogar viku fyrir sandi, möl og steinsteypu. Bryggjur og bátalægi urðu til. Hrófin og Lækurinn, helsta athafnasvæðið á Heimaey frá landnámi, hurfu. Og í gosinu 1973 lögðu náttúruöflin lokahönd á mannanna verk. Hraunið gleypti hús og götur og þar með allt frá þessu mesta athafnasvæði eyjaskeggja um aldir. Þau sögulegu ummerki, sem enn voru til staðar um aldagamla verslunar- og útgerðarsögu, voru endanlega afmáð. Stórvirkar vinnuvélar mótuðu loks svæðið á þann máta, sem blasir við vegfarendum í dag. Það reynir á ímyndunaraflið, þegar rýnt er inn í himinháan hraunvegginn, sem byrgir sýn til fortíðar. 

Garðurinn 

Undir hrauninu er gamli vegurinn austur á Skansinn, alla leið í gegnum gamla virkið, sem enn stendur að hluta. Að vestan og neðan við Skansinn voru Dönsku húsin, aðsetur kaupmanna og umboðsmanna danska kóngsins á tímum einokunarverslunar á árabilinu 1550- 1788, híbýli, vöruskemma, fiskhús og sölubúð. Þar var fólki safnað saman i Tyrkjaráninu árið 1627 áður en það var flutt út í skip, og húsin síðan brennd. Dönsku húsin voru endurbyggð innan virkisins og nefnd Danski Garður eða einfaldlega Garðurinn og varð áfram eini verslunarstaðurinn í Eyjum næstu aldir. Mikil umsvif voru í Dönsku húsunum og síðar í Garðinum, verslun, viðskipti, útgerð. Tvö kaupskip komu að jafnaði árlega til Eyja með varning í verslunina og flutti svo vörur af staðnum til baka, fisk, lýsi og fl.

Þegar verslun var gefin frjáls árið 1788 héldu danskir kaupmenn áfram kaupskap í Garðinum næstu u.þ.b. 130 árin, þar sem Bryde- feðgar stýrðu lengst viðskiptum frá miðri 19. öldinni og fram á þá 20. Réði danska kaupmannastéttin, í umboði kóngs sem á eigin vegum, meira og minna verðlagi, viðskiptaháttum, rekstri og útgerð í Eyjum um aldir sem rýrði mjög möguleika eyjaskeggja til sjálfræðis og sjálfsbjargar. Verslunareinokun og ánauð danskra yfirvalda á þessa þegna sína í norðurhöfum ríkti meira og minna þessar aldir með fylgifiskum undirokunar og kúgunar. Árið 1917 komst elsti verslunarstaður í Eyjum loks í hendur heimamanna, þegar kaupfélagið Fram eignaðist Garðinn.

Godthaab

Með tilskipun árið 1788 gaf danski kóngurinn öllum sínum þegnum frelsi til þess að stunda verslun á Íslandi og þar með í Vestmannaeyjum. Í framhaldinu jókst kaupmennska þarna við Lækinn eða í grennd við hann, þó ekki fyrr en um 1830, þegar danski stórkaupmaðurinn P.C. Knudtzon stofnaði þar til verslunarreksturs ásamt mági sínum Th. Thomsen, kaupmanni í Hafnarfirði. Verslunina nefndu þeir Godthaab og voru byggð nokkur hús á lóðinni, s.s. íbúðarhús, vöruskemma og fl. Eftir 1881 keypti J.P.T. Bryde í Danska- Garði eignir Godthaab og flutti öll húsin nema íbúðarhúsið austur til Víkur í Mýrdal.

Gísli og Einar

Nú var komið að tveimur heimamönnum sem fengu í kjölfar dönsku kaupmannanna afnotarétt af Godhaab- lóðinni á nýrri öld, hvor á eftir öðrum. Gísli J. Johnsen setti á fót þróttmikla verslun og útgerð rétt eftir aldamótin 1900 og þar með hófst mikið framfaraskeið með miklum framkvæmdum. Hús og bryggjur voru byggðar, vélbátaöldin hélt innreið sína og á örfáum áratugum jókst efnahagsleg velsæld í Eyjum og íbúafjöldinn margfaldaðist.

Einar ríki Sigurðsson tók við eignum Gísla J. Johnsen eftir 1930 og hélt áfram að byggja upp mikinn atvinnurekstur á Godthaab- lóðinni og einnig í Garðinum, sem hann eignaðist árið 1940. Var Einar þar með orðinn eigandi að tveimur elstu verslunarstöðunum á Heimaey. Tók sjávarútvegurinn í Eyjum áfram stökk fram á við, og var Einar stórtækur í þeirri þróun sem hélt áfram fram að Heimaeyjargosinu 1973. Hvarf þá endanlega stærsti hluti þessa aldagamla verslunar- og athafnasvæðis, m.a. elstu leifar frá tímum beggja verslana, Godthaab- húsið frá 1830 og Kornloftið frá sama tíma nokkru austar, seinustu leifar Garðsverslunarinnar.

Hraunið

Unnt er að ganga eftir þröngum stíg í austur með hraunjaðrinum og komast þá leið inn í Skansinn, virkið sem enn stendur. Þá er væntanlega farið skammt ofan við gamla flæðarmálið að lóð Garðsverslunar. Erfitt er þó að átta sig á staðháttum vegna þeirrar umbyltingar sem orðið hefur á landslaginu. Hin leiðin er að ganga eða aka eftir vegi upp hraunkambinn og þaðan niður á Skansinn. Þá er farið tugi metra ofan þess svæðis, þar sem gömlu verslunarstaðirnir voru.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar