Juliushaab, Tanginn í Vestmannaeyjum

Juliushaab á Tanganum

Á árabilinu 1846- 1849 byggði danskur kaupmaður, J.P. Birck, íbúðar- og verslunarhús á svokölluðum Tanga vestan við Anesarvik, en hann hafði fengið leyfi til þess að opna þarna verslun eftir að einokun var aflétt árið 1788. Voru verslanir þá orðnar þrjár í Eyjum, gamla einokunarverslunin Garðurinn austast við Skansinn, Godthaab upp af Læknum og loks hin nýja verslun, Juliushaab, sem kölluð var Tangaverslunin eða einfaldlega Tanginn. Kaupmennska J.J.P. Birck stóð hins vegar stutt við, en hann varð sjálfum sér að bana eftir örfá ár í Eyjum. 

Árið 1852 keypti N.N. Bryde, kaupmaður í Garðinum, Tangaverslunina og kom þar með í veg fyrir samkeppni þaðan við sig. Honum tókst að reka tvær verslanir næstu áratugina, sem var ólöglegt, í skjóli þess, að verslunarstjórar hjá honum ættu og rækju Tangaverslunina. Einn þeirra var Gísli Engilbertsson, en hann var verslunarstjóri frá 1870 til 1890. J.P.T. Bryde erfði verslanir föður síns við dauða hans árið 1879 en það var 10 árum síðar sem Aagaard sýslumaður beitti valdi sínu á þann veg, að kaupmaður varð að afsala Tangaversluninni til sonar síns. Var verslunin lögð niður fáum árum síðar árið 1893.

Mikil umsvif voru í kringum Tangann svo sem aðra verslunarstaði í Eyjum. Juliushaab- verslunin hafði oftast eitt vöruflutningaskip í förum milli landa, en slík skip voru yfirleitt fjögur samtals hjá öllum verslununum í Eyjum. Þá voru að auki skip, sem fluttu timbur, salt og kol yfir úthafið. Lifrarbræðsluskúrar risu fyrir vestan meginbyggingar verslunarinnar og bryggja var byggð.

Verslunin Gunnar Ólaffson & Co

Fyrirtækið Gunnar Ólafsson & Co keypti Tangaverslunina árið 1910 og rak verslunina undir því heiti, þótt hún væri aldrei kölluð annað en Tanginn og var svo fram yfir Heimaeyjargosið 1973 til ársins 1979. Þá flutti fyrirtækið í nýbyggingu austan við gamla verslunarhúsið, sem var loks rifið, þegar öll starfsemi var flutt úr því árið 1985.  Verslunin Krónan er nú á lóð Tangans.

Allt umhverfi á Tanganum er mikið breytt frá þvi að J.P. Birck hóf þar byggingarframkvæmdir og verslunarrekstur um 1850. Ekki sést tangur né tetur af húsakynnum, sem þarna voru, íbúðarhúsi, verslunarhúsum, kolageymslum, lifrarbræðsluskúrum, verbúðum og hjöllum. Þá eru öll stakkstæði, sem mjög voru áberandi á þessum slóðum langt fram eftir seinustu öld, horfin undir hús og götur. 

Sonur verslunarstjórans

Gísli Engilbertsson, verslunarstjóri á Tanganum, eignaðist 5 börn, og var eitt þeirra Engilbert, sem fæddist þar 12. október 1877. Engilbert Gíslason varð snemma listhneigður og hélt um aldamótin, rúmlega tvítugur, utan til náms í málaraiðn.  Hann lauk námi í Kaupmannahöfn, snéri aftur til Íslands og frá 1910 bjó hann samfellt i Eyjum til dauðadags.  Engilbert hafði lífsviðurværi sitt af því að mála hús og byggingar s.s. Landakirkju, en listmálun togaði sífellt í hann og hélt honum föngnum.  Á langri ævi málaði Engilbert fjölmörg verk, sem túlka á listfengan hátt náttúru, sögu og mannlíf Eyjanna. Hann lést í Vestmannaeyjum 7. desember 1971.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar