Litla-Langa í Vestmannaeyjum

Svo er sandbrekkan nefnd vestan Kleifnabergs í Heimakletti, sem aðskilur hana frá annarri stærri austan bergsins, Löngu eða Stóru- Löngu.  Heimildir eru um beinafundi á þessum slóðum. Aagaard, sem var sýslumaður í Eyjum á árabilinu 1872- 1891, lét grafa þar og komu þá upp mannabein, sem flutt voru í Landakirkjugarð.  Á 9. áratug 19. aldar fundust á þessum slóðum 3 beinagrindur, sem lágu frá vestri til austurs, og enn komu í ljós bein árið 1913, þegar sundskáli var reistur undir Litlu- Löngu.  Þessir beinafundir hafa þótt stutt þá skoðun, að kirkjugarður hafi verið þarna fyrr á öldum, jafnvel tengdur fyrstu kirkjunni í Eyjum, Klemensarkirkju, sem Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason reistu árið 1000?

Umhverfi Litlu- Löngu hefur tekið miklum breytingum undanfarna áratugi.  Sandfjaran, sem einkenndi nágrenni hennar hefur vikið fyrir miklum jarðvegsuppfyllingum, skipalyftu og bryggjugerð.  Hús og bátar sjávarútvegsfyrirtækja hafa leyst af hólmi sandfjörurnar, þar sem ungdómur eyjanna lærði sundtökin fyrri hluta seinustu aldar, baðaði sig á góðviðrisdögum fram eftir öldinni og lék sér í flæðarmálinu.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar