Þorlaugargerði í Vestmannaeyjum

Mormónabæli

Í Þorlaugargerði bjó Loftur Jónsson um miðja 19. öldina. Hann var mikilsvirtur borgari í Eyjum, m.a. meðhjálpari Brynjólfs Jónssonar prests, nágranna síns á Ofanleiti. Loftur tók mormónatrú árið 1851 í kjölfar þess að til Eyja fluttust tveir Íslendingar, sem tekið höfðu trúna í Danmörku, Þórarinn Hafliðason frá Kirkjubæ og Guðmundur Guðmundsson, kenndur við Þorlaugargerði. Varð Loftur foringi og lærifaðir mormóna í Eyjum, sem héldu m.a. samkomur á laun á heimili hans. Prestarnir, séra Jón Austmann og séra Brynjólfur Jónsson, og sýslumaður börðust mjög gegn þessari “villutrú”, sem grafið hafði um sig nánast í túnfætinum á prestssetrinu! Prófasturinn í Rangárvallasýslu var sama sinnis og óttaðist mjög að mormónatrúin bærist frá Eyjum.  Mæltist hann til þess að fólk hefði tiltæk leiðarbréf til staðfestingar á lúterstrú sinni, ef það hugðist halda upp á land! Brynjólfur prestur hélt þrumuræður í Landakirkju yfir mormónunum, og svo fór að þeim varð ekki lengur vært á staðnum. Loftur þráaðist við í nokkur ár, en flutti loks burt árið 1857 ásamt fleira fólki til Utah, en þá þegar höfðu nokkrir haldið á brott til fyrirheitna landsins í vestri. 16 árum síðar, árið 1873, mætti Loftur aftur til Eyja við annan mann og hélt trúboði þar áfram sem og á Suðurlandi. Létu einhverjir skírast og hófst aftur mikil togstreita með kærum og kvörtunum milli Brynjólfs prests og mormóna. Á næstu árum og allt fram á  9. áratuginn komu trúboðar til Eyja, presti og öðrum embættismönnum til mikillar armæðu, enda var þeim vel ágengt. Munu um 200 manns hafa flutt frá Eyjum til Ameríku á árabilinu 1874- 1895, u.þ.b. helmingurinn mormónatrúar, og flestir sest að í Utah.

Fyrirheitna landið, Utah

Ferðalagið frá Vestmannaeyjum til Utah var langt og strangt. Oftast var siglt fyrst til Kaupmannahafnar, þaðan jafnvel til Bretlandseyja eða Þýskalands og margra vikna og mánaða bið á viðkomustöðum, þegar aðrir hópar Ameríkufara bættust við. Þá tók siglingin langa við yfir Atlantshafið, þar sem allra veðra var von, og margir dóu á leiðinni. Loks var landleiðin farin að einhverju leyti með járnbrautum, fljótabátum og gufuskipum yfir vötnin miklu, og einnig var haldið fótgangandi yfir sléttur, eyðimerkur og óbyggðir með handvagna og uxakerrur undir vistir. Vestmannaeyingarnir í Utah ásamt fjölmörgum löndum sínum, sem fylgdu í fótspor þeirra, tóku svo þátt í að breyta eyðimörk í blómlega byggð í hinum nýju heimkynnum og risu upp til velsældar af  dugnaði og þrautseigju. 

Ræturnar 

Á seinustu áratugum hefur áhuginn aukist beggja vegna Atlantshafsins á sögu þessara ”samlanda”, sem margir hverjir hrökkluðust forsmáðir í burtu frá heimahögunum, s.s. úr Eyjum. Gömul sár eru gróin og tengsl hafa myndast á ný. Hópar Eyjamanna hafa haldið vestur um haf í heimsókn til Utah og aðrir komið til Vestmannaeyja í leit að rótum forfeðranna. Þrátt fyrir miklar breytingar á staðháttum í Eyjum eftir 150 ár, geta afkomendur vesturfaranna nálgast gömul bæja- og staðarheiti, sem tengja nútímann og fortíðina sterkum böndum. Þorlaugargerði er t.a.m. enn til á sínum gömlu slóðum sem og Landakirkja, þar sem reiðilestrar og skammaræður prestanna hljómuðu yfir forfeðrum þeirra. Þá er Mormónapollurinn vestur á hömrum, og veglegur minnisvarði er til vitnis um skírnardýfingar, sem þar fóru fram. Loks geymir Safnahús Vestmannaeyja fróðlegt mynda- og gripasafn frá þessum umbrotatímum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar