Stakkagerðiskróin í Vestmannaeyjum

Á vertið í Eyjum

Stakkagerðiskróin stóð beint suður upp frá Bæjarbryggjunni á horni Strandvegar og Formannasunds.  Króin var í eigu Gísla Lárussonar í Stakkagerði og ein fjölmargra sem stóðu í grennd við aðalatvinnusvæði eyjaskeggja á fyrri hluta 20. aldarinnar. Hún skar sig ekki úr króaþyrpingunni nema að því leyti að hún var með þeim veglegri, steinsteypt, og þar vann Theódór Friðriksson, aðgerðarmaður og rithöfundur, en hann gerði sögusvið króarinnar ógleymanlegt í bók sinni Í verum.   Theódór kom fyrst á vertíð til Vestmannaeyja árið 1920, en hann var alls 15 vertíðir í Eyjum.  Frásögn hans gefur einstaka innsýn í líf vertíðarmanns á þeim umbrotatímum sem voru hafnir í  kjölfar vélbátaútgerðar og byltingar í lifnaðarháttum sem henni fylgdi. Hlutverk Theódórs sem aðgerðarmanns var að gera að helmingi aflans af Má VE 178 sem var að hálfu í eigu Gísla Lárussonar, vinnuveitanda hans. Þurfti hann að sækja allan fisk á handvagni og koma í hús og ægði þá öllu saman við Bæjarbryggjuna, þegar vel fiskaðist. Sjómennirnir köstuðu fiski upp á bryggjuna en stingir komu ekki fyrr en 1928 til Eyja, sem auðvelduðu þessa vinnu. Á bryggjunni mynduðust fiskkasir sem fjöldi aðgerðamanna sótti í, hver í kös sinnar útgerðar. Tugir og jafnvel hundruð handvagna gátu verið þarna á ferð á sama tíma og var það að sögn Theódórs  þrælavinna að koma fiskinum í krærnar.  Beitt var uppi á lofti í Stakkagerðiskrónni en Theódór gerði að fiskinum niðri, þar sem hann saltpæklaði hann ofan í þrjár steyptar þrær. Fiskinum varð  hann síðar að umstafla. Þá sótti Theódór salt í króna, keyrði lifrina í Brasið, kom fiskúrgangi frá og þurfti að hafa allt til reiðu, þegar afli barst eftir hverja veiðiferð.
Þegar Theódór sneri heim aftur norður í land eftir sína fyrstu vertíð hafði hann aflað meiri tekna en nokkru sinni áður og hvatti unga menn til þess að feta í sín fótspor. Einn þeirra, sem lagði eyrun við áeggjan Theódórs var Helgi Benediktsson, sem stundaði síðar um árabil þróttmikla verslun og útgerð í Eyjum.

Listræn arfleið

U.þ.b. þremur áratugum eftir veru Theódórs Friðrikssonar í Eyjum, skömmu eftir miðja 20. öldina, flutti í bæinn barnakennari nokkur, Bjarni Th. Rögnvaldsson. Bjarni reyndist dóttursonur rithöfundarins og fékkst meðfram kennslu sinni m.a. við sama starfa og afinn, ritstörf og skáldskap. Á þeim áratug, sem Bjarni bjó í Eyjum, setti hann mikinn svip á bæjarlífið og er afar minnisstæður fyrrverandi nemendum sínum sem og öðrum bæjarbúum. Bjarni skildi ekki aðeins eftir sig andleg verðmæti í Eyjum í hugum og færni nemenda sinna heldur sinnti hann einnig veraldlegri verkefnum og byggði sér hús við Strembugötu sem ber handbragði hans vitni.

Annar dóttursonur Theódórs Friðrikssonar og bróðir Bjarna, var Pétur Rögnvaldsson (Peter Ronson), Ólympíufari í Róm 1960 og leikari í Hollywood, þar sem hann lék í stórmyndinni Leyndardómar Snæfellsjökuls, sem byggð var á sögu Jules Verne. Meðleikarar Péturs voru skærustu stjörnur Hollywood á þessum tíma, Pat Boone og James Mason. Því fylgdi sérstök tilfinning að horfa á stórmynd þessa tíma í Samkomuhúsi Vestmannaeyja, þar sem bróðir Péturs var einn bæjarbúa og jafnvel staddur þeirra á meðal í sýningarsalnum! Heil eilífð virtist hafa liðið frá því að afi þeirra bræðra stóð við aðgerðarborðið í Stakkagerðiskrónni nokkrum áratugum áður!

Umbylting

Allt umhverfi, þar sem Stakkagerðiskróin var, er gjörbreytt í dag.  Þar sem króin stóð er nú margra metra hár hraunjaðar úr Heimaeyjargosinu 1973.  Aðeins Bæjarbryggjan stendur enn.  Stakkagerðiskróin var reyndar horfin fyrir gos þar sem hún var á horni Formannasundsins, en veiðafærahús og hús tengd útgerðinni við höfnina stóðu enn við sundið. Sunnan þess opnaðist svo eina raunverulega torgið á Heimaey, Heimatorg, með krossgötum eða gatnamótum til allra átta, umkringt verslunum, íbúðarhúsum og fyrirtækjum.
Mannlíf á þessum slóðum i nágrenni Bæjarbryggjunnar hefur og fylgt breytingum á umhverfinu. Ys og þys í kringum báta, fiskhrúgur, handvagna og síðar vörubíla heyrir fortíðinni til. Svokallaðir sportbátar einkenna nú gamla Lækinn og fiskur sést ei lengur á landi. Einstaka fjölskyldubílar silast stefnulítið eftir bryggjum og þeir, sem ráfa um fótgangandi, hafa allt annað í huga en forfeðurnir. Þrátt fyrir allar breytingar á það e.t.v enn við um fólkið í Eyjum, sem aðgerðarmaðurinn í Stakkagerðiskrónni sagði, að það væri “teprulaust, hressilegt í viðmóti og djarft”?

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar