Turninn í Vestmannaeyjum

Söluturninn, sjoppan við sjávarsíðuna

Þorlákur Sverrisson hóf rekstur Söluturnsins við Strandveg árið 1927. Keypti Þorlákur kró nálægt mjölgeymsluhúsi því, sem nú stendur við horn Strandvegar og Kirkjuvegar, og byggði ofan á hana. Hugmynd hans var sú að þjóna sjómönnum og fiskvinnslufólki við sjávarsíðuna, sem væri seint á ferli, og fékk Turninn lengra opnunarleyfi á þeim forsendum. Þá var verslun Þorláks einnig ætlað annað og óhefðbundnara hlutverk.

Veður- og fréttastofa fyrir sjávarútveginn

Að frumkvæði Björgunarfélagsins í Eyjum var samið við eigandann um að verslun hans yrði veður- og fréttastofa fyrir sjávarútveginn á staðnum og birti veðurskeyti í gluggum fyrir vegfarendur enda Turninn í alfaraleið með bryggjurnar, Bæjarbryggjuna og Edinborgarbryggju, og aðgerðarhúsin, fiskikrærnar, í næsta nágrenni. Auk þess var sjálfritandi loftvog komið fyrir í glugga, „barograf“, svo menn áttuðu sig betur á veðrinu og veðurhorfum. Veðurskeytin voru rituð á ákveðin eyðublöð sem voru rauð að lit ef stormur var í aðsigi. Á stríðsárunum mátti ekki birta veðurskeyti í útvarpi né á almannafæri og var þá kveikt á rauðu ljósi í Turninum þegar vænti mátti óveðurs og loftvogin var sem fyrr í glugganum.

Árið 1947 eignuðust Turninn þeir Ólafur Erlendsson frá Landamótum og Rútur Snorrason frá Steini með sömu skuldbindingum og áður að birta veðurfréttir í glugga gegn lengri opnunartíma á meðan von væri á bátum af sjó. Þórarinn Þorsteinsson frá Hjálmholti, Tóti í Turninum, tók við eignarhluta og afgreiðslustörfum af Ólafi árið 1952. Með tilkomu sérstaks hlustunartækis gat Turninn aukið þjónustu sína og gefið upplýsingar um komutíma báta og jafnvel afla þeirra einnig.

Alhliða fréttastofa fyrir bæjarbúa

Árið 1958 varð Turninn að víkja fyrir breikkun Strandvegarins og fluttist starfsemin í annað hús nokkrum húslengdum austar. Lokunartíma var breytt árið 1961 í samræmi við aðra söluturna eða sjoppur svo væntanlega hefur sérstökum skyldum í rekstrinum verið lokið. Tóti í Turninum hélt þó áfram að þjónusta bæjarbúa með fleira á boðstólum en kók og puslu og víkkaði hann umfang Turnsins sem fréttaveitu. Með auknum íþróttaáhuga í bænum s.s. á 7. áratugnum gátu bæjarbúar  t.a.m. hringt í Turninn til þess að fá upplýsingar um stöðu knattspyrnuleikja sem leiknir voru utan eyjanna. 

Turninn stóð fram að Heimaeyjargosinu 1973 þegar hann hvarf undir hraun. Eftir gos var hann opnaður í Drífanda og flutti síðar í hús hinum megin götunnar þar sem rekstur hans stóð yfir fram að aldamótum 2000.

Endalokin

Allt umhverfi við austanverðan Strandveg er gjörbreytt frá tímum Turnsins þarna við veginn.  Krærnar eru horfnar og stóru fiskvinnsluhúsin, sem risu í kjölfar þeirra, Fiskiðjan, Ísfélagið og Hraðfrystistöðin, einnig.  Aldagömul miðstöð útgerðar við Lækinn og Hrófin heyrir fortíðinni til.  Aðeins Bæjarbryggjan stendur enn, vart meira en bryggjustubbur á nútíma mælikvarða, til marks um liðinn tíma.  Sjómenn og fiskvinnslufólk eiga ekki leið lengur til og frá vinnu framhjá Turninum.  Iðandi mannlíf á þessum slóðum er horfið.  Hraunið frá Heimaeyjargosinu 1973 hefur svo lagst yfir hluta þessa svæðis eins og til þess að staðfesta endalok þess.  Hraunjaðarinn geymir leifar Turnsins, sjoppunnar sem gegndi víðtæku hlutverki í atvinnulífi Eyjamanna.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar