Stafkirkjan í Vestmannaeyjum

Norðmenn gáfu þessa kirkju árið 2000 í tilefni af því að 1000 ár voru liðin frá því að kristni var lögfest á Íslandi. Kirkjunni var valinn staður í Vestmannaeyjum, þar sem Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti Teitsson reistu fyrstu kirkju í kristnum sið í boði Noregskonungs árið 1000. Sú kirkja var nefnd Klemensarkirkja eftir heilögum Klemensi, og mun hún hafa staðið undir Heimakletti, á Hörgaeyri, þar sem Hjalti og Gissur komu fyrst að landi samkvæmt Kristnisögu.

Stafkirkjan

Eftirmynd þessarar kirkju var hins vegar fundinn staður á Skansinum, á Hringskerjum, við syðri hafnargarðinn gegnt Hörgaeyrinni. Hin nýja kirkja er nefnd Stafkirkjan eftir byggingarlagi hennar, stafverki, sem algengt var á miðöldum. Hún er staðsett í skjóli nýja hraunsins úr Heimaeyjargosinu 1973, á einu mesta átakasvæði í sögu Vestmannaeyja, þar sem eyjamenn hafa um aldir barist við náttúruöflin, hafölduna sem grandaði skipum þeirra og hafnargörðum og síðar hraunstrauminn úr Eldfelli, sem stöðvaður var við hafnarmynnið með sjókælingu.

Virkið og fæðingarheimilið

Á þessum sömu slóðum tókust eyjaskeggjar fyrr á öldum á við mannskepnuna, ágenga ribbalda, svo virkið á Skansinum var reist. Loks er fyrsta fæðingarheimili á Íslandi, Landlyst, staðsett rétt innan selingar við Stafkirkjuna, þar sem Vestmannaeyingar sigruðu óáþreifanlegri vágest, ginklofann, sem felldi meginþorra ungbarna í Eyjum á 19. öld.

Skildu eftir svar