Urðir í Vestmannaeyjum

Sveinn Eggertsson
Heljargreipar hafsins

Svæðið frá syðri hafnargarðinum, Hringskersgarðinum, austur og suður fyrir Sigurðarrönku var kallað einu nafni Urðir en í grjóturð skammt frá, beint austur af Kirkjubæjum, var talið að Jón Þorsteinsson, píslarvottur, hafi falið sig í hellisskúta í Tyrkjaráninu 1627. Urðirnar, eins og nafnið gefur til kynna, einkenndust af klöppum, sem gengu í sjó fram, stórgrýti, víkum og hömrum. Allt þetta landslag er gjörbreytt og horfið undir hraun úr Heimaeyjargosinu 1973. Öldur Atlantshafsins eiga ekki lengur eins greiðan aðgang inn Leiðina þar sem bátar Eyjamanna börðust um þegar vindar blésu í ólgusjó á leið í róður eða heim að honum loknum. Flóinn gat orðið sem ólgandi suðurpottur með Norðurklettana á aðra hönd og Urðirnar á hina, hættuspil fyrir sjófarendur. 16. febrúar árið 1923 lenti vélbáturinn Njáll GK 456 í heljargreipum hafsins á leið í róður steinsnar frá Hringskersgarðinum.

Vélbáturinn Njáll GK ferst
Gunnar Ólafsson

Njáll GK lagði af stað frá höfninni um kl. 9 að morgni eftir vonskuveður um nóttina. Þegar báturinn var kominn út Leiðina, suður fyrir Hringskershafnargarðinn, drapst á vélinni og rak bátinn nokkra stund í austan brælu. Vélbáturinn Haffrú var skammt frá og reyndu bátsverjar að koma línu yfir í Njál sem rak stjórnlaust að landi og brotnaði þar loks er hann steytti á skerjum. Fórst þarna öll skipshöfnin, 5 menn. Einn bátsverja náðist um borð í bátinn Atlantis, sem kom þarna að, og var manninum komið strax í land á skjöktbáti sem róið hafði verið frá landi um leið og sést hafði hvað verða vildi. Var bátsverjinn lagður á grúfu í bátnum, róið með hann styðstu leið að Edinborgarbryggju, hann fluttur þaðan í Gamla spítalann en reyndist þá látinn. Fjöldi manns fylgdist með á Skansinum og þótti slys þetta með þeim átakanlegri sem Eyjamenn urðu vitni að enda í „nærmynd“, nánast í flæðarmálinu.

Fleiri skipsskaðar

Sjóslys við Urðirnar eða í nágrenni þeirra urðu tíð á fyrstu áratugum 20. aldarinnar.  Rúm tuttugu ár voru liðin frá Njálsslysinu þegar Eyjamenn höfðu horft  hjálparvana á annað stórslys rétt við „bæjardyrnar“, er árabátur á leið frá landi til Eyja sökk með u.þ.b. tuttugu manns um borð handan við Klettsnefið eða í Beinakeldu. Og enn skemmra síðan vélbátinn Fram rak upp í Urðir austan við Kirkjubæi 14. janúar árið 1915 í ofsaveðri. Urðu menn vitni að þvi í landi er ólag keyrði bátinn í kaf og fórust allir bátsverjarnir fimm að tölu. Formaður var Magnús Þórðarson, kenndur við húsið Dal við Kirkjuveg, sem hann byggði árið 1906. Vélamaður var Ágúst Sigurhansson en bróðir hans, Karl, var með meiru einhver fræknasti langhlaupari eyjanna og landsins á fyrri hluta 20. aldar.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar