Skansinn í Vestmannaeyjum
Virkið
Skansinn er orð úr dönsku og þýðir virki. Upphaflega var hann gerður árið 1586 til þess að verja dönsku konungsverslunina gegn ágangi Englendinga, en hefur síðan verið margendurbyggður. Miklar endurbætur voru t.a.m. gerðar á honum eftir Tyrkjaránið 1627 og æfingar stundaðar þar í kjölfarið til þess að verjast hugsanlegum ágangi og árásum. Herfylkingin, sem stofnuð var um miðja 19. öld, var með æfingar sínar á Skansinum og reyndar víðar á Heimaey.
Verslunarstaður
Á árabilinu 1630- 1638 voru verslunarhús dönsku einokunarkaupmannanna í Eyjum endurbyggð í Skansinum, en þau höfðu verið brennd til grunna í Tyrkjaráninu 1627. Stóðu þau hús, Dönskuhúsin, vestan við Skansinn, en voru nú reist innan hans og hann að einhverju leyti endurbyggður utan um húsin. Var verslunarstaðurinn nefndur Kornhóll, sennilega vegna kornhlaða dönsku kaupmannanna, sem þar voru, og síðar Danski – Garður eða einfaldlega Garðurinn. Á næstu öldum mun húsakostur Garðsverslunar hafa verið breytilegur og um miðja 19. öldina voru t.a.m. 12 hús í Garðinum, tvö inni í Skansinum en hin vestan hans, sölubúðir, vörugeymslur, bakarí, íbúðarhús verslunarstjóra, vindmylla, salthús, kolahús, lýsisbræðsla og fl. Kornloftið, sem byggt var 1830, stóð enn af þessari húsaþyrpingu árið 1973, þegar það varð hrauninu í Heimaeyjargosinu að bráð.
Varnargarður
Í Tyrkjaráninu 1627 munu skip ræningjanna frá Miðjarðarhafinu hafa horfið frá hafnarminninu, þegar virkið á Skansinum blasti við og viðbúnaður innan þess. Þar náði þessi varnargarður að bægja frá mestu ógn, sem eyjaskeggjar höfðu nokkurn tíma staðið frammi fyrir, þótt hún hafi svo læðst aftan að þeim með landtöku illvirkjanna suður á eyju. Nærri þremur og hálfri öld síðar var váin enn meiri þegar Skansinn mætti náttúruöflunum í Heimaeyjargosinu 1973. Fjallhátt hraun sótti að virkinu úr þremur áttum og hlóðst upp á leið sinni út í hafnarmynnið. Þegar framrás þess lauk var nánast allt þetta aldagamla svæði horfið, en varnargarðar Skansins stóðu þó að mestu enn og blasa við í dag sem vin í eyðimörk, þegar siglt er inn Leiðina. Gamli stígurinn austur Strandveginn er horfinn undir hraun með húsum beggja megin, en göngu- og akfært var í gegnum virkið að vestan. Nú er aðeins unnt að ganga nokkra metra inn að austan og feta sig upp á stalla, þar sem eftirlíkingum af fallbyssum fyrri alda hefur verið komið fyrir. Að öðru leyti byrgja háir hraunveggir þá sýn, sem einu sinni var. Þegar horft er norður stendur Heimaklettur þó á sínum stað sem áður.
Útivist, útsýni og saga
Á seinustu öld var Skansinn oft fjölsóttur sem útsýnisstaður yfir hafnarmynnið, þar sem fylgst var með bátakomum einkum í vondum veðrum. Þessu hlutverki gegnir hann enn, þótt sigling báta í sjávarlöðri séu liðin tíð og úthafsaldan leiti ekki lengur inn höfnina. Utivistar- og ferðafólk leggur nú leið sína á Skansinn einkum á góðviðrisdögum til þess að njóta kyrrðar, stórbrotins útsýnis og merkilegrar sögu. Skansinn geymir auk sinnar eigin fortíðar fyrsta fæðingaheimili á Íslandi, Landlyst, sem byggt var 1848 og flutt á Skansinn eftir endurbyggingu í upphafi 21. aldar. Þá er þar stafkirkja, sem Norðmenn gáfu í tilefni 1000 ára kristnitöku og eystri hafnargarðurinn, en bygging hans var mikið þrekvirki á fyrstu áratugum seinustu aldar.